138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[15:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að hæstv. heilbrigðisráðherra þyki gaman í vinnunni eins og okkur öllum. Ég er hálfslegin yfir orðum hennar úr ræðustól þingsins þar sem hún fullyrti að fólk innan við 18 ára mundi ekki framfylgja lögunum jafn vel og þeir sem eru eldri en 18 ára. Fullyrti að þeir sem seldu tóbak í verslunum mættu ekki gera það því að þeir væru þá hálfgerðir lögbrjótar. Ég vil benda hæstv. ráðherra á að þeir sem ekki hafa aldur til að kaupa tóbak hafa ekki heldur aldur til að selja tóbak. Þess vegna kom þessi sjálfsagða spurning sem hæstv. heilbrigðisráðherra hristir nú hausinn yfir: Má sá sem ekki hefur aldur til að kaupa sér aðgang að ljósabekk selja aðgang að ljósabekk? Þetta er mjög einföld spurning. Þetta snýst ekki um að ungt fólk á Íslandi kunni ekki að fara eftir lögum. Mér finnst ámælisvert að ráðherra í ríkisstjórn skuli fara fram með þennan málflutning hér úr ræðustól.

Gott og vel. Ráðherrann telur að þetta lagafrumvarp verji börn gegn hættulegum geislum. Eins og kom fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur gildir þá ekki jafnræði yfir okkur öll fyrst þessir geislar eru svona hættulegir? Hvers vegna er verið að skipta þessu niður eftir aldri?

Það sem kom fram í máli ráðherrans í ræðunni er mjög athyglisvert: Þessir geislar eru stórhættulegir. Þakka ég henni kærlega fyrir fróðleikinn þó að vísu standi nokkuð mikið um þetta í frumvarpinu. En nú játar ráðherrann að greinargerðin sé kannski ekki nægilega upplýsandi. Við erum á Alþingi til þess að setja lög og spyrja framkvæmdarvaldið út í þau frumvörp sem það leggur fram til þess að við setjum ekki (Forseti hringir.) ólög. Það hlýtur að vera markmiðið með þessum umræðum.