138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:29]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Eygló Harðardóttir erum a.m.k. sammála um að það felst engin heildstæð framtíðarsýn fyrir fjármálamarkaðinn í þessu frumvarpi. En mig langar til að taka það fram varðandi þá breytingartillögu sem hér er gerð að umtalsefni og kvartað undan að henni fylgi ekki nægilegar skýringar, að henni hafi ekki verið fylgt eftir í umræðunni, að ég er fylgjandi þessari breytingartillögu. Hún er skynsamleg. Hún getur bjargað gríðarlega miklu fyrir Innstæðutryggingarsjóð og eftir atvikum fyrir ríkissjóð ef samningar á borð við þá sem ríkisstjórnin hefur leitt til lykta verða endurteknir. Eins geta þeir skipt forgangskröfuhafa í þrotabúið gríðarlega miklu. Þannig getur þetta skipt Breta og Hollendinga sem kröfuhafa í þrotabú Landsbankans mjög miklu, reyndar svo miklu að það getur numið milljörðum eða milljarðatugum, það er erfitt að segja til um það á þessari stundu.

En í samhengi við viðræður okkar við Breta og Hollendinga skiptir þetta líka máli vegna þess að ef þær aðstæður skapast að Landsbankinn getur geymslugreitt risastórar fjárhæðir inn á geymslureikninga sem merktir verða Bretum eða eftir atvikum Hollendingum, eru þær fjárhæðir þar með komnar í ávöxtun þannig að viðkomandi ríki munu njóta þess þegar þau fá á endanum aðgang að þessum peningum. Og það er nánast hægt að halda því fram af Íslands hálfu að viðkomandi ríki hafi þá þegar fengið viðkomandi upphæðir greiddar og engin ástæða sé þá til að ræða um einhverjar lántökur af Íslands hálfu eða veita ríkisábyrgð fyrir þessum fjárhæðum. Þetta eru hlutir sem við ættum að vera að ræða vegna þess að þeir skipta okkur það miklu máli. Það væri meira að segja tilefni til þess, fyrst þessi breytingartillaga er komin inn, að fá nánari upplýsingar um stöðuna í þrotabúi Landsbankans.