138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

aukning aflaheimilda.

[12:35]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um þá hugmynd að auka aflakvótann. Nú horfir í stórvandræði hjá stórum hluta flotans um allt land þar sem kvótinn er að verða uppurinn og atvinnuleysi þess vegna að aukast í öllum plássum landsins. Það eru full rök fyrir því að auka kvótann án þess að raska í nokkru þeirri viðmiðun sem Hafrannsóknastofnun hefur haft uppi um það módel sem hún byggir á. Áhættan er engin í því dæmi og aflaaukning um nokkra tugi þúsunda tonna, kvótaaukning, mundi ekki raska þeirri viðmiðun sem stofnunin miðar við.

Þess vegna er það knýjandi að hæstv. sjávarútvegsráðherra taki núna af skarið eins og manni sæmir og létti á þessum vanda þjóðarinnar, vanda útgerðarinnar, vanda fólksins í byggðum landsins sem þarf á vinnunni að halda. Það gengur ekki að atvinnuleysi aukist vegna þessara þátta þegar við höfum borð fyrir báru á annað borð.