138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[12:42]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst að þakka þeim þingmönnum sem hleyptu mér fram fyrir í röðinni í þessari umræðu þar sem ég get ekki tekið þátt í henni seinni partinn í dag en um eittleytið verður henni frestað til klukkan þrjú. Það er kannski aukaatriði. Við erum öll sammála um að breyta þurfi forminu, það þarf að breyta því hvernig unnið er að fjárlagagerð hvers árs. Mér heyrist að allir sem taka til máls séu sammála um það. Hv. þm. Pétur H. Blöndal talar um að við þurfum að fá meiri aga í ríkisfjármálin. Ég er alveg hjartanlega sammála honum, en ég veit að fyrir einhverjum árum þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við völd, hélt um fjármálaráðuneytið og átti marga þingmenn í fjárlaganefnd var líka rætt um að taka upp aga. Þetta er ekki ný umræða. Þessi umræða hefur farið fram trekk í trekk — en það breytist ekkert.

Nú er að störfum einhvers konar ríkisfjárlaganefnd. Í henni eiga sæti formaður og varaformaður fjárlaganefndar, fulltrúar fjármálaráðuneytisins og að mér skilst formaður viðskiptanefndar og væntanlega efnahags- og skattanefndar. Ég er ekki alveg með þetta á hreinu. Þessi nefnd á sem sagt að undirbúa fjárlög næsta árs sem eru einhver erfiðustu fjárlög sem Íslendingar munu þurfa að kljást við. Ég hef gagnrýnt að þessi nefnd sé yfir höfuð til. Ég tel eðlilegt að fjárlagagerðin eigi sér stað í fjárlaganefnd og að hún fái þá tiltekin tæki og aukna aðstoð ef þarf til þess einmitt að undirbúa fjárlögin og vinna þau frá grunni.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði sig úr þessari nefnd um daginn vegna þess að hún upplifði að hún fengi bara skilaboð að ofan, skilaboð úr fjármálaráðuneytinu um hvernig fjárlögin fyrir næsta ár ættu að líta út. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson lýsti yfir að allt væri unnið í sátt og samlyndi í fjárlaganefnd, eins og ég skildi hann. Ég er ósammála því. Að sjálfsögðu stöndum við fjárlaganefndarfulltrúar sátt upp frá borði og eigum vingjarnleg samskipti eftir fundina en ég held samt að það sé ekki neinum til gagns, ef menn vilja raunverulega breyta hlutunum, að segja að þar sé allt í lukkunnar velstandi eins og ég skildi hv. þingmann. Við getum tekið Icesave-málið sem dæmi, leynd yfir gögnum. Við kölluðum eftir því að tilteknir sérfræðingar kæmu fyrir fjárlaganefnd og við þurftum að berjast fyrir því trekk í trekk að fá þá fyrir nefndina eða þá að fá nauðsynleg gögn og upplýsingar. Þetta var bara fyrir skemmstu, það er örstutt síðan við tókum þátt í þessum slag og við eigum ekki að tala eins og að þetta sé allt saman í lagi. Ef við gerum það breytast hlutirnir ekki.

Eins er varðandi háskólasjúkrahúsið sem er reyndar ekki til umræðu hér, nú hefur verið til umræðu í fjárlaganefnd að þar eigi að leggja út í um 51 milljarðs kr. framkvæmd, einhverja stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, og þótt ég vilji taka það sérstaklega fram að mér finnst vinnubrögðin hafa batnað og hafa verið jákvæðari og sýnt meiri vilja hjá meiri hlutanum til að koma til móts við minni hlutann finnst mér þetta samt ekki í lagi. Við horfum enn þá upp á vöntun upplýsinga og skort á fagmennsku í gegnum allt þetta ferli.

Nú erum við einmitt að ræða lokafjárlög fyrir árið 2008. Ég held að það þurfi ekki að minna fólk sérstaklega á að það er árið sem bankarnir hrundu og það varð allsherjarhrun. Ríkissjóður tapaði gríðarlega miklum fjármunum sem er fyrst og fremst tilkomið vegna þess að Seðlabankinn var í ábyrgðum fyrir bankana og þurfti að fella niður stóran hluta þeirra. Fjárheimildir sem voru til ráðstöfunar á árinu 2008 námu 489,4 milljörðum kr. Útgjöld samkvæmt ríkisreikningi námu 687,9 milljörðum kr. Þess vegna var staða fjárheimilda í árslok neikvæð um 198,5 milljarða kr. Eins og ég hef bent á eru helstu skýringar á þessu mikla fráviki gjaldfærsla á rúmlega 192 milljarða kr. afskrift af veðlánakröfum sem ríkissjóður yfirtók af Seðlabanka Íslands eftir fall bankanna og af verðbréfalánum til aðalmiðlara. Auk þess voru gjaldfærðar ríflega 35 milljarða kr. lífeyrisskuldbindingar umfram áætlun vegna neikvæðrar ávöxtunar og áfalla sem lífeyrissjóðir starfsmanna ríkisins urðu fyrir í kjölfar bankakreppunnar. Ég held að það þurfi að fara betur ofan í það hvernig eigi að tilgreina beint þau töp sem lífeyrissjóðirnir urðu fyrir á hlutabréfa- og skuldabréfaeign í stað þess að kalla þau neikvæða ávöxtun. Ég held að það þurfi að kanna mun betur ástæður þess mikla taps sem lífeyrissjóðir starfsmanna ríkisins urðu fyrir og vekur minni hlutinn athygli á því að tapaðar fjármagnstekjur vegna þessa geta einnig numið verulegum fjárhæðum.

Ég vil benda á að í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2008 er spurt hvers vegna Seðlabankinn hafi ekki brugðist fyrr við þessum leik bankanna þar sem vitað var um hann. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á að draga hefði mátt úr því tjóni sem ríkissjóður og Seðlabankinn urðu fyrir við fall bankanna. Við sem stöndum að minnihlutaálitinu, sá sem hér stendur og hv. þm. Þór Saari, bendum á að það virðist ekki vera ætlun fjárlaganefndar að hlusta á þessi orð Ríkisendurskoðunar og óska eftir stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka Íslands. Þess vegna má velta fyrir sér til hvers þessi hluti af eftirliti Alþingis er.

Á annað ár er liðið frá hruninu og enn er Seðlabanki Íslands með sömu verkefni og honum mistókst að leysa í aðdraganda hrunsins. Ég get ekki betur séð en að bankinn starfi enn eftir sömu verkferlum og þá. Nú er verið að afgreiða lokafjárlög fyrir árið 2008. Það er verið að afgreiða ríkisreikning fyrir árið 2008 og afleiðingar hrunsins koma mjög skýrt fram í honum. Ég tel einnig eðlilegt að Ríkisendurskoðun eða annar aðili sem Alþingi velur vinni ítarlega stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka Íslands og að inn í þá úttekt verði tekin þau störf stjórnsýslunnar, þá sérstaklega fjármálaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins, sem tengjast þroti Seðlabankans síðustu mánuði fyrir hrun. Ég lýsi í rauninni undrun minni á því að Ríkisendurskoðun skuli ekki að eigin frumkvæði hafa hafið þessa úttekt strax í kjölfar hrunsins og mætti segja að það væri ámælisvert að slíkri rannsókn skyldi ekki hafa verið lokið samhliða endurskoðun fyrir árið 2008.

Eins og áður getur er um gríðarlegar fjárhæðir að ræða, þannig fjárhæðir að ég get því miður ekki staðið að afgreiðslu þessa frumvarps. Ef ekki verður komið til móts við óskir okkar mun ég því sitja hjá við afgreiðslu þess.

Það er margt jákvætt í fjárlaganefnd við fjárlagagerð og ýmislegt rætt. Bankahrunið varð til þess að augu margra opnuðust fyrir því að þau vinnubrögð sem tíðkuðust í fjárlaganefnd eru hluti af vandanum, hluti af því hruni sem átti sér stað. Þetta vinnst hægt en gegn góðum orðum formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, treysti ég því að vinnubrögðunum verði breytt. Ég finn að hann er allur af vilja gerður til að reyna að þoka þessum málum áfram. Kannski er auðveldara um að tala en í að komast. Ég lýsi mig reiðubúinn til að aðstoða við þá framkvæmd alla en get því miður ekki staðið að þessu frumvarpi.