138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

happdrætti.

512. mál
[19:53]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að nú hyllir undir að þetta frumvarp verði að lögum en með því er kveðið á um skýrari reglur um bann sem eigi að gilda við happdrættum sem eru erlend en rekin hér á landi og auglýst á íslenskum vefmiðlum. Happdrætti er kurteist orð sem er notað um spilavíti. Spilavíti eru mikið böl hér á landi. Því miður er það svo að ýmis þjóðþrifasamtök, Rauði krossinn, Landsbjörg, SÁÁ, Háskóli Íslands og nokkrar aðrar slíkar stofnanir, eru að hluta til reknar með fjármagni sem á uppruna sinn í vasa spilafíkla. Þetta er nöturlegt því að öll viljum við veg þessara stofnana sem mestan, hygg ég. Okkur ber að reyna að finna betri tekjustofna en vasann á ógæfufólki, því að þótt einhverjir hafi gaman af því að spila endrum og eins, í spilakössum eða jafnvel taka þátt í spilaleik hjá spilavíti á netinu, eru þeir miklu fleiri sem gera það vegna þess að fíkn hefur tekið völdin. Í rauninni má tala um að það séu tveir háðir fíkninni, þeir sem ráða ekki við hana sjálfir og hlaupa í spilavítin og hinir sem eru háðir fjármagninu sem þannig er fengið.

Ég man eftir því að þegar ég fór fyrst að skipta mér af þessum málum hér í þessum ræðustól fyrir einum 15 árum, furðaði ég mig alltaf á því hve fáir tóku þátt í þeirri umræðu. Ég rakti það til þess að þetta væri ekkert óskaplega vinsælt því að þetta var strax lagt út á þann veg af hálfu margra, að verið væri að ráðast á þau samtök sem ég nefndi hér. Það var náttúrlega alls ekki hugsunin heldur hitt að ræða jafnframt hvernig hægt væri að finna þeim aðilum tekjulindir sem sköðuðu ekki fólk.

Hæstv. forseti. Ég kem hér fyrst og fremst upp til að lýsa ánægju minni með það að frumvarpið verði að lögum, enn eitt skrefið stigið í þá átt sem ég held að við eigum að stefna, að banna spilavíti algjörlega, þessa spilakassa. Þessir spilakassar sem við sjáum í búðunum og í verslunum eru uppistaðan í spilavítunum í Las Vegas og við eigum ekki að líða svona starfsemi hér í okkar þjóðfélagi.