138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir.

650. mál
[23:07]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka öllum þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðu að kvöldi um þetta frumvarp. Mér finnst það hafa fengið virkilega góðar viðtökur og er mjög þakklátur fyrir það. Ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður, Ásbjörn Óttarsson, sagði um þverpólitíska nefnd sem hefur tíma til að fara í gegnum þetta, útfæra og finna, eins og hv. þingmaður sagði, sanngjörnustu leiðina þannig að sem mest og breiðust sátt náist um framkvæmdina og breytt gjaldheimtukerfi eða tekjuöflunarkerfi til framtíðar.

Okkur liggur á að hleypa lífi í atvinnumarkaðinn. Ég verð að segja alveg eins og er, og ég hef sagt það áður, að í ár vinnum við í vegagerð fyrir hvorki meira né minna en 11,5 milljarða kr. Það er há upphæð á þessu erfiðleikaári en á næsta ári er ekki ráðstafað nema 1,5 milljörðum kr. Það er vegna þess að mörg verk klárast á þessu ári og árið 2012 eru ekki verk inni nema fyrir 500 millj. kr.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, sem situr í samgöngunefnd og ræðir þessi mál af mikilli þekkingu, gat um ríkishlutann eða samgönguáætlunina, að við höfum útboðsmöguleika á verkum upp á 6 milljarða, verkum sem við munum bjóða út síðar á þessu ári til að koma þessu í gang. Sá stóri hluti sem hér er inni er hvorki meira né minna en 32–33 milljarðar, með Vaðlaheiðargöngum, á þessu fjögurra ára tímabili. Við verðum að átta okkur á því að e.t.v. fer þetta yfir á árið 2015 ef við komumst seinna af stað en við mundum þá halda að við hefðum gert virkilega vel við þessa atvinnugrein.

Ég óttast það sem ég sá á vef RÚV áðan þar sem sagði, með leyfi forseta:

„Öllum starfsmönnum Ræktunarsambands Flóa og Skeiða á Selfossi, 60 talsins, verður sagt upp frá næstu mánaðamótum. Ástæðan er sú að engin verkefni liggja fyrir í haust en fyrirtækið er eitt hið stærsta í landinu í almennri verktakastarfsemi eins og í vegagerð, vatnsborunum og þungaflutningum.“

Nú er það svo, virðulegi forseti, að framkvæmt verður fyrir 11,5 milljarða á þessu ári, á næsta ári komumst við í að vinna verk fyrir 6 til 7 milljarða og á þarnæsta ári, 2012, líka fyrir um 6 milljarða — þetta eru töluverðar framkvæmdir í sögulegu tilliti miðað við hlutfall af vergri landsframleiðslu. Samt sem áður þurfum við að gera meira. Það vantar svo marga til að kaupa verk af þessari atvinnustétt, þ.e. það vantar sveitarfélög, almenning og fyrirtæki. Ríkið er langstærsti aðilinn í þessum bransa í dag og í þeim verkum sem eru í gangi. Þess vegna talaði ríkisstjórnin um að gera þetta svona, gefa í með lánum frá lífeyrissjóðnum o.s.frv.

Hv. þingmaður spurði hvað gerðist á árunum 2014–2017, eða við skulum segja 2015–2017 ef hið nýja kerfi verður ekki tilbúið. Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg viss um að það sé ástæðan fyrir því að Hollendingar ætla að gera þetta árið 2017. Ég bíð eftir gögnum frá Hollandi um það. Það getur verið að einhverjar aðrar ástæður séu fyrir því en tæknin. En hv. þingmaður nefndi tvær leiðir sem ég tek heils hugar undir að vert sé að skoða, vegna þess að ekki eyðum við peningum í annað kerfi á meðan eða kaupum kerfi sem ekki er framtíðarkerfi. Einn af plúsunum við þetta kerfi er að þegar evrópskir bílar koma til Íslands fara þeir beint inn í þetta samevrópska kerfi. Eins ef við förum með bílana okkar út fer það inn í sama kerfi þannig að þetta verður samræmt.

Hv. þingmaður talaði líka um arðsemi, fjármögnun og allt það. Það er alveg rétt sem fram kom að inni í því sem talað er um eru vangaveltur um hver umferðin verði. Verður hún meiri eða minni en áætlanir gera ráð fyrir á meðan lífeyrissjóðirnir meta sitt? Það er alveg rétt. Menn telja að við fáum verri vaxtakjör vegna þess að við getum ekki sett á þetta ríkisábyrgð. Það er alveg ljóst. Ef við gætum sett á þetta ríkisábyrgð fengjum við betri kjör, en þá þyrftum við líka að færa þetta í ríkisreikning. Nú telst ég ekki talsmaður þess að við fölsum það mál. Hér er verið að tala um að stofna opinbert hlutafélag sem á að afla fjár á annan hátt en með skatttekjum og þess vegna er eðlilegt að það sé utan við, líkt og Spölur hefur verið frá upphafi Hvalfjarðarganga. Spölur hefur aldrei verið færður inn í ríkisreikning.

Ég vil líka þakka hv. þm. Önnu Margréti Guðjónsdóttur fyrir ræðu hennar og það sem hún færði í tal. Það er ákaflega merkilegt og ég hef áður hlustað á hv. þingmann fjalla um möguleika á því að fleiri komi að þessu en lífeyrissjóðirnir. Það er alveg hárrétt. Til mín hafa komið erlendir aðilar, að vísu fyrir nokkuð mörgum mánuðum síðan, sem spurðu út í þetta og höfðu jafnvel áhuga á að koma með fjármagn inn í slíkar framkvæmdir. Þeir sáu sér hag í því en ég hef ekki heyrt í þeim upp á síðkastið. Hv. þingmaður nefnir Evrópska fjárfestingarbankann, hvort einhverjir möguleikar opnist ef við verðum í aðildarviðræðum landa á næstunni. Sannarlega er það, eins og hv. þingmaður sagði, virkilega af hinu góða að við leitum til fleiri aðila eða fleiri aðilar vilji bjóða okkur peninga. Þó að það hafi ekki komið fram gagnvart vegaframkvæmdunum sem slíkum hafa komið fram varðandi samgöngumiðstöð og stækkun flugstöðvar á Akureyri óformlegar sendingar frá ákveðnum bönkum um að þeir geti hugsað sér að taka þátt í fjármögnun verkefnanna, sem eru náttúrlega miklu minni en það sem hér um ræðir.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að lengja þinghaldið meira um þetta mál. Ég fagna því sem komið hefur fram frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, Ragnheiði E. Árnadóttur, Ásbirni Óttarssyni og Önnu Margréti Guðjónsdóttur. Viðbrögð við málinu hafa verið ákaflega jákvæð og vonandi fær það virkilega góða vinnu í samgöngunefnd sem slíkri og að þar verði unnið hratt og vel, vegna þess að okkur liggur á. Síðan er það aftur útfærsluatriði varðandi hið nýja tekjuöflunarkerfi með þverpólitískri nefnd sem ég hef líka nefnt við forustumenn allra flokka á Alþingi. Allir hafa tekið vel í það vegna þess að þar höfum við meiri tíma til að finna upp sanngjarnt kerfi sem við Íslendingar getum sætt okkur við, vegna þess að það borgar enginn annar en við sjálf rekstur vegakerfisins. Í dag borgum við í raun og veru vegtolla með olíugjaldi og bensíngjaldi þegar við ferðumst um vegina og eftir því sem við ferðumst meira og eyðum meira eldsneyti því meira borgum við til ríkissjóðs. Þess vegna þurfum við að finna sanngjarnara kerfi sem virkar fyrir alla sem ferðast um vegina, sama hver orkugjafinn er. Þetta er tvímælalaust framtíðin sem ég hef gert að umtalsefni.

Virðulegi forseti. Síðustu orð mín skulu vera til þeirra þingmanna sem hafa tjáð sig um frumvarpið með kærum þökkum fyrir jákvæð viðbrögð. Ég vona að það fari til samgöngunefndar og verði unnið þar vel. Ég hygg að við getum myndað þverpólitíska samstöðu um þetta þjóðþrifa- og framfaramál.