138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa komið of seint en við í þingmannanefndinni kláruðum fund akkúrat klukkan hálf og það tók smátíma að komast yfir Austurvöll.

Ég kem hingað upp til að fá að ræða við hv. þm. Oddnýju Harðardóttur um úthlutunarreglur LÍN. Ráðherra hefur samþykkt þessar úthlutunarreglur og framkvæmdastjóri LÍN sá sér þá fært að senda nefndarmönnum menntamálanefndar reglurnar. Það var þannig að ég óskaði eftir fundi í menntamálanefnd til að ræða drög að úthlutunarreglunum áður en ráðherra hefði samþykkt þær til að við hefðum eitthvað um þau að segja. Fundurinn var haldinn og fulltrúar LÍN mættu án þess að afhenda okkur nefndarmönnum drögin þannig að við reyndum að ræða eitthvað sem við vissum ekki almennilega hvað var. Síðan passar framkvæmdastjórinn sig á að senda okkur ekki reglurnar fyrr en ráðherra er búinn að undirrita þær.

Þeir þingmenn sem komu upp í ræðustól voru að tala um mikilvægi gagnsæis. Það hlýtur að vera þetta nýja sjálfbæra gagnsæi sem menn hafa talað um upp á síðkastið því að þetta er algjör leyndarhyggja og algjörlega óásættanleg vinnubrögð gagnvart Alþingi. Við eigum að vera aðhalds- og eftirlitsaðili með framkvæmdarvaldinu þannig að við þurfum að fá upplýsingar sem við óskum eftir frá framkvæmdarvaldinu til að við getum tekið afstöðu til þess hvort það sem framkvæmdarvaldið gerir sé ásættanlegt eða ekki. Ég óska eftir því við hv. formann menntamálanefndar, Oddnýju Harðardóttur, að hún kalli ráðherra menntamála á okkar fund ásamt formanni stjórnar LÍN þar sem við getum talað við þessa fulltrúa framkvæmdarvaldsins um það hvort þetta séu vinnubrögðin sem þeir telja að eigi að iðka á hinu nýja Íslandi.