138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

framhald umræðu um stjórnlagaþing.

[15:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það hefur svo sem lengi verið hefð á síðustu vikunum á þingi að lítið skipulag sé á hlutunum, en ég held að nú séum við að vissu leyti að slá met. Ég frestaði einmitt fundi í hádeginu vegna þess að ég taldi að við ættum fljótlega eftir umræðuna um heilbrigðisþjónustuna að ræða heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi, sem er í minni nefnd og er mjög stórt mál. Í framhaldinu ætti síðan að ræða framhaldsskólana sem er einnig mál sem ég ætlaði að tala í. Síðan er tilkynnt um að það eigi að byrja á því að ræða um stjórnlagaþingið og maður fær SMS og skilaboð um það. Síðan var mjög einkennilegt að fylgjast með því, virðulegi forseti, þegar framsögumaður 1. minnihlutaálits var í miðri ræðu og hafði sérstaklega nefnt að hún hygðist nota sinn tíma og þyrfti síðan að vera annars staðar eftir aukadagskrárumræðuna, að hún var stoppuð í miðri ræðu, í staðinn fyrir að gefa þingmanninum tækifæri til þess að klára ræðu sína. Síðan hefði átt að (Forseti hringir.) byrja aukadagskrárumræðuna.

Ég vil því óska eftir að við fáum, þó ekki væri annað, (Forseti hringir.) að vita kannski með sólarhrings fyrirvara hvaða mál á að ræða og að forseti (Forseti hringir.) haldi sig við tilkynnta dagskrá.