138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[13:08]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Á flokksþingi framsóknarmanna var ákveðið að halda áfram með uppbyggingu á Landspítalanum. Það var að sjálfsögðu gert með þeim fyrirvara að það væri skynsamlegt og hagkvæmt og að þjóðin hefði efni á því. Ég hef líka sagt að það þurfi að kanna kostnaðar- og ábatagreiningu vegna þessarar byggingar fyrir heilbrigðisþjónustuna úti um allt land. Framsóknarflokkurinn hélt lengi vel um stjórnartaumana í heilbrigðisráðuneytinu og eftir þann tíma gaf OECD út skýrslu þar sem sagt var að heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga væri lofsvert og að aðrar þjóðir ættu að taka það sér til fyrirmyndar.

Ég set verulegan fyrirvara við að nú skuli eiga að framkvæma þetta í einkaframkvæmd og tel að (Forseti hringir.) það verði ríkinu dýrara. Ég mun því sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.