138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:42]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram, þingmanni Samfylkingarinnar, fyrir hreinskilnina. Það er gott að heyra að hann telji að hvorki heimilin í landinu né fyrirtækin þoli frekari skattahækkanir og ég er honum hjartanlega sammála um það. Það væri óskandi að hv. þingmaður mundi beita sér með okkur sjálfstæðismönnum í þessu máli gagnvart hæstv. fjármálaráðherra en eins og ég hef skilið hann og ummæli hans í tengslum við skattamál hér á landi er ekki séð fyrir endann á skattahækkunum, samanber yfirlýsingar hans þar um, opinberar yfirlýsingar við ýmis tækifæri.

Ég vil sem nefndarmaður í hv. viðskiptanefnd fara nokkrum orðum um þetta mál eins og það er orðið og þær breytingartillögur sem hér eru lagðar fram. Ég vil byrja á því að þakka meiri hlutanum í nefndinni, formanni og varaformanni nefndarinnar, hv. þingmönnum Lilju Mósesdóttur og Magnúsi Orra Schram, fyrir ágæta yfirferð yfir þau atriði sem við töldum við 2. umr. að þörfnuðust nánari skoðunar í nefndinni áður en gengið yrði til atkvæða um málið. Sjálfur lagði ég áherslu á að farið yrði efnislega yfir breytingartillögu sem meiri hlutinn lagði fram og samþykkt var eftir 2. umr. og birtist nú í frumvarpinu svo breyttu í 49. gr., en þar er fjallað um heimildir slitastjórnar til að geymslugreiða eða depónera kröfur í heild eða að hluta áður en ágreiningur um viðurkenningu kröfu hefur verið leiddur til lykta.

Ég taldi að hér væri um afar mikilvægt mál að ræða og mikilvæga heimild fyrir slitastjórnir bankanna, ekki síst vegna þess að fyrir liggur að fyrirsjáanleg eru gríðarlega mörg ágreiningsmál, gríðarlega mörg dómsmál vegna ágreinings um kröfur sem verið er að véla með inni í bönkunum. Í fjölmiðlum nú í vikunni voru fluttar af því fréttir að dómsmálum vegna mála sem eru til umfjöllunar í skilanefndum og slitastjórnum kynni að fjölga um tugi þúsunda. Það er einfaldlega vegna þess að kröfuhafar geta gert ágreining um afstöðu skilanefnda til þeirra krafna sem um ræðir en þeir geta líka gert ágreining um afgreiðslu og þá eftir atvikum viðurkenningu á kröfum annarra. Fyrir því kunna að vera ýmsar ástæður að slíkur ágreiningur er hafður uppi, m.a. að einhverjir kröfuhafar telji sig hafa hagsmuni af því að tefja uppgjör á bönkunum.

Af þeirri ástæðu er sú breytingartillaga sem færð var inn í frumvarpið ákaflega mikilvæg. Hún hefði getað reynst okkur Íslendingum ágætlega t.d. í Icesave-málinu vegna þess að geymslugreiðsla þýðir í rauninni það að sá sem hana innir af hendi telst hafa innt af hendi fullnaðargreiðslu vegna þeirrar kröfu sem að honum beinist og þar með efnt kröfuna þar til skorið hefur verið úr ágreiningi um réttmæti hennar. Það er þannig að þegar krafa er geymslugreidd ber hún vexti til þess að tryggja að sá sem greiðir hana verði ekki fyrir tjóni vegna hennar og verði jafnsettur eftir að ágreiningurinn hefur verið leiddur til lykta.

Í tengslum við umræðu um þetta atriði frumvarpsins voru fengin á fund nefndarinnar Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmaður, Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður og Steinunn Guðbjartsdóttir hæstaréttarlögmaður, formaður slitastjórnar Glitnis. Þau reifuðu viðhorf sín til þessarar breytingartillögu, töldu að hún væri til mikilla bóta og ég tek undir það mat, en ég taldi á sínum tíma þegar ég óskaði eftir því að málið gengi aftur til nefndar að nauðsynlegt væri að við efnislega yfirferð yrði farið yfir þetta mikilvæga atriði málsins.

Í ræðu minni við 2. umr. um þetta mál vakti ég máls á því að frumvarpið væri í rauninni svar ríkisstjórnarinnar við hruni fjármálakerfisins. Það byggir á tillögum frá finnskum sérfræðingi sem heitir Kaarlo Jännäri, sem ríkisstjórnin fékk til ráðgjafar varðandi viðbrögð við bankahruninu. Ég benti á það að sá galli er á þessu frumvarpi að það er lagt fram tiltölulega löngu áður en skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom fram. Í þeirri ágætu skýrslu koma fram ýmsar ábendingar um það sem aflaga fór í fjármálakerfi okkar og þar er á sama hátt vikið að ýmsum atriðum sem betur mættu fara varðandi ýmsa þætti löggjafar sem um það gilda. Ég var þeirrar skoðunar þá að skynsamlegt hefði verið að draga þetta frumvarp aftur til baka, máta það saman við þær ábendingar sem fram koma í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og reyna að tvinna saman við frumvarpið umfjöllun og tillögugerð varðandi þau álitaefni sem frumvarpið nær ekki til en þau eru fjölmörg. Þetta frumvarp er því ekki heildarlausn á þeim vanda sem við eigum við að etja heldur felur frekar í sér einhvers konar smáskammtalækningar gagnvart þeim sjúkdómum sem fjármálafyrirtækin og fjármálaumhverfið allt hafa glímt við á undanförnum árum og missirum.

Ég lýsti þeirri skoðun minni að það sem væri athyglisverðast við frumvarpið væri í rauninni það sem ekki stendur í því. Þetta frumvarp er ekki til þess fallið að tryggja það að sú ömurlega saga sem við urðum vitni að og olli þessu þjóðfélagi miklum búsifjum endurtaki sig ekki, heldur eru þetta minni háttar breytingar sem þó eru flestar til góðs en það þarf bara meira til að koma. Ég hlýt þess vegna að fagna því að meiri hlutinn leggi til breytingu á frumvarpinu og við það bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, ákvæði sem við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í viðskiptanefnd höfðum barist fyrir og höfum verið að tala fyrir í tengslum við alla meðferð málsins. Í bráðabirgðaákvæðinu segir:

„Efnahags- og viðskiptaráðherra skal skipa nefnd sem hafi það hlutverk að móta stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins með hliðsjón af ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, væntanlegum tillögum þingmannanefndar Alþingis um nauðsynlegar lagabreytingar og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lagaumhverfi fjármálageirans eftir fall bankanna. Nefndin skal m.a. skoða stöðu og starfsumhverfi sparisjóða, eignarhald fjármálafyrirtækja á vátryggingarfélögum og öfugt, reglur um hámarkseignarhlut í fjármálafyrirtæki og hvernig verði best hægt að tryggja dreift eignarhald, og hvort skilja beri að starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.“

Ég þakka meiri hluta viðskiptanefndar fyrir það að leggja þessa breytingartillögu til en hún staðfestir auðvitað og sýnir það og sannar sem ég og fleiri hv. þingmenn héldum fram við 2. umr. málsins, að í frumvarpinu væri ekki tekið á stærstu álitamálunum sem við blasa eftir bankahrun og eru að sínu leyti talin upp í bráðabirgðaákvæðinu. Það segir sig sjálft að úr því að lagt er til að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra skipi nefnd þar sem taka þarf á málefnum sparisjóðanna, eignarhaldi fjármálafyrirtækja og því hvort skilja beri að starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka o.s.frv., þá á löggjafinn og ríkisstjórnin og samfélagið allt ákaflega langt í land með að ljúka þeirri yfirferð sem nauðsynleg er í þessu máli.

Þó að ég fagni því í sjálfu sér að þessi tillaga komi fram og lýsi því hér með yfir að ég muni að sjálfsögðu styðja þessa breytingartillögu meiri hlutans tel ég að skynsamlegra hefði verið að kveða á um það í tillögunni með hvaða hætti hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra bæri að skipa í þessa nefnd. Ég hefði talið skynsamlegt að hafa í ákvæðinu einhvers konar leiðbeiningu um það hvaðan nefndarmenn í hinni væntanlegu nefnd ættu að koma með hliðsjón af þeim hagsmunum og þeirri þekkingu sem bæði reynir á og þarf að koma til skoðunar í þessu afar mikilvæga nefndarstarfi, en einnig hefði ég talið að í þessu bráðabirgðaákvæði þyrfti að taka fram fyrir hvaða tíma nefndinni bæri að skila niðurstöðum sínum. Það er alveg ljóst að yfirferð á þeim verkefnum sem nefndinni er ætlað að skila verður ekki lokið á einni helgi heldur er viðbúið að þau umfangsmiklu og yfirgripsmiklu verkefni sem henni er ætlað að leysa þurfi mikla yfirlegu, mikla sérfræðiþekkingu og alveg einstaklega vandaða yfirferð. Það er ekkert launungarmál að endurskoðun á starfsumhverfi sparisjóða, tillögugerð um dreift eignarhald á fjármálafyrirtækjum og aðskilnað fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi eru bæði flókin viðfangsefni og yfirgripsmikil og þau þurfa sannarlega mikla og vandaða yfirferð.

Engu að síður er það svo að fjármálakerfi okkar hrundi. Við viljum endurreisa það og við viljum að það sé gert sem fyrst. Við höfum allt of mörg dæmi um það þegar ríkisvaldið hagar málum þannig að skipaðar eru nefndir til að leiða til lykta ákveðin álitamál að slíkt nefndarstarf vill þá dragast. Þess vegna hefði ég talið mikilvægt í tengslum við þessa breytingartillögu, sem ég ítreka að ég fagna, að inn í það ákvæði væru sett einhver tímamörk til að reyna að tryggja að þær tillögur sem nefndinni er falið að leggja fram í veigamiklum málum líti dagsins ljós eins fljótt og kostur er. Þannig væri hægt að taka afstöðu til þeirra og ræða þær bæði úti í samfélaginu og ekki síður á hinu háa Alþingi vegna þess að eftir allt sem á undan hefur gengið er geysilega mikilvægt að menn reyni, eftir því sem þeir best geta, að ná þverpólitískri sátt um þær leiðir sem menn vilja fara í sátt og samkomulagi við bæði þá sem á þessum markaði starfa og sömuleiðis við þá (Forseti hringir.) sem við hann skipta, sem eru neytendur.