138. löggjafarþing — 140. fundur,  14. júní 2010.

lækkun launa í heilbrigðiskerfinu.

606. mál
[13:50]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hv. fyrirspyrjandi fór yfir lista yfir þann hóp sem væri með hærri laun en hæstv. forsætisráðherra. Á honum eru yfir 400 manns á og stór hluti þeirra er í heilbrigðiskerfinu. Maður veltir fyrir sér hvort það sé yfirleitt gerlegt að ná launum þessara aðila niður fyrir laun forsætisráðherra og ég hef miklar efasemdir um það.

Mér skildist að hæstv. heilbrigðisráðherra hefði gefið út fyrirmæli um að það ætti að ná þessu, reyndar var orðið leiðarljós notað líka en mér heyrðist orðið fyrirmæli vera notað, og mér heyrðist líka að þetta hefði verið gert bréflega. Þá spyr ég: Stendur til eftir einhvern ákveðinn tíma, hálft ár, eitt ár, að gefa út nýjan lista og megum við þá búast við því að enginn verði á honum? Ég hef miklar efasemdir um að þetta sé hægt, virðulegur forseti, en ég styð alla viðleitni í þessa átt. Ég held bara að raunveruleikinn sé sá að þetta náist ekki fram.