138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

693. mál
[11:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu fullgilt að fara hér með ýmis varúðarsjónarmið, ég geri ekkert lítið úr þeim. Alltaf þegar heimildir af þessu tagi eru innleiddar þarf að hyggja að því eins og kostur er að vandlega sé með þær farið. Ég hef ekki ástæðu til að óttast að skattyfirvöld, tollstjóri og dómstólarnir sem hér eiga hlut að máli, reyni ekki að vanda framkvæmdina; það er þá hægt að kæra niðurstöðuna. Í öðru lagi eru þeir sem með heimildirnar fara sér mjög vel meðvitaðir um það að ef farið er offari í slíkum málum getur það kallað á bótagreiðslur. Ég held menn hafi ekki áhuga á að lenda í slíku.

Það er mikilvægt að fram komi, þó ég ætli ekki að ræða þetta út frá einstökum tilvikum eða blanda mér í þau, að kyrrsetningin í þessu tilviki sem var síðan tilefni þessara laga eða frumvarpsflutnings þar sem ákveðin aðgerð var dæmd ógild af hálfu Hæstaréttar, var ekki dæmd ógild sem slík, kyrrsetningunni var ekki hafnað kyrrsetningarinnar vegna heldur var það lagatæknilegt atriði, sem ég fór yfir í framsögu minni, að ekki væri nægjanlegt að beita tilvísun milli mismunandi bálka skattaréttarins heldur yrðu sjálfstæðar kyrrsetningarheimildir að standa inni í öllum meginlagabálkunum. Það er það sem verið er að lagfæra hér til að hafið sé yfir vafa að framkvæmdin geti gengið á þeim grunni.