138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Bara til að bregðast við þessu síðasta þá er alveg ljóst að þegar málið kom til 1. umr., í júní hygg ég, þá nefndi hv. þm. Einar K. Guðfinnsson við atkvæðagreiðslu í þinginu að hann óskaði eftir að fagnefndir fengju málið til umsagnar. Þeirri beiðni var því komið á framfæri þá strax og það sjónarmið var ítrekað í allsherjarnefnd þó að það virtist hafa skolast eitthvað til þar. Nóg um það.

Hv. þm. Þuríður Backman vísar hins vegar til einhverra greiningargagna í forsætisráðuneytinu. Nú er það svo að við lestur greinargerðar frumvarpsins er ekki hægt að sjá að vísað sé til neinna slíkra gagna. Það er mat sem liggur fyrir frá fjárlagaskrifstofunni, eins og skylda er með öllum stjórnarfrumvörpum, en varðandi stjórnsýsluþætti er ekki vísað til neinna gagna. Þetta er greinargerð upp á margar blaðsíður sem fyrst og fremst felst í því að segja í löngu máli það sem stendur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. En ekki er vísað í nein gögn. Í greinargerðinni sem liggur fyrir með frumvarpinu er ekki vísað í neinar matsskýrslur, ekki vísað í neinar greiningar og þegar eftir því var leitað í allsherjarnefnd var ekki hægt að bregðast við því með því að leggja fram nein slík gögn. Fyrir okkur almenna nefndarmenn í allsherjarnefnd horfði málið þannig við og það hefur ekki verið leiðrétt í þingsal að slík gögn væru yfir höfuð ekki fyrir hendi. Hugsanlega eru slík gögn fyrir hendi. Ég veit ekki hvort svo er. Ég veit ekki hvort hv. þm. Þuríður Backman hefur einhverjar upplýsingar um einhver slík greiningargögn, einhverjar matsskýrslur eða eitthvað þess háttar sem ekki komu fram við málsmeðferð í þinginu. Ég held að svo sé ekki. Ég held að það eina sem liggur fyrir í þessu máli sé pólitískur vilji ríkisstjórnarinnar en að faglega undirbúningsvinnu skorti.