139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:35]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er alveg rétt að það var kynnt árið 2008 að opinberum starfsmönnum mundi væntanlega fækka í tengslum við þá efnahagsáætlun sem ákveðið var að vinna eftir. Í framboðsferðum og áróðri fyrir kosningarnar 2009 var allt öðrum þáttum haldið fram og þess vegna verður þetta miklu sárara en ella fyrir þá einstaklinga og það fólk sem trúði því sem að því var beint.

Ég vil segja út frá umræðunni um hvernig við eigum að fara í það að hagræða í heilbrigðisþjónustunni að þetta tekur til annarra þátta líka — af því að ég sé hæstv. menntamálaráðherra hér — þetta snýr líka að skólakerfinu. Ég lýsi því yfir að ég er reiðubúinn til að ræða alla skapaða hluti. Það er hins vegar erfitt að ræða þetta þegar maður kemur algerlega nýr að þessu núna og hefur ekki haft ýkjamikinn eða langan tíma þó að þetta séu fjórir sólarhringar til að setja sig inn í þetta. Til viðbótar er fjárlagafrumvarpið líka þannig búið að það á eftir að taka gagngerum breytingum. Það á t.d. eftir að sameina ráðuneyti sem hæstv. ráðherra — ég kann ekki rununa alla — Guðbjartur Hannesson mun stýra. Alþingi ætti í rauninni að sjá um það verk en hefur ekki neina burði til þess. Það kostar fjármuni að vinna þessa vinnu og það hefði verið eðlilegt að leggja til með því verki fjármuni þó ekki væri nema til Alþingis eða fjárlaganefndar til að vinna þá vinnu alla sem þessu máli fylgir. Það er í rauninni grátlegt að fjárlagafrumvarpið skuli þurfa að koma fyrir Alþingi í öðrum búningi en gildandi lög kveða á um.