139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

uppsögn fréttamanns hjá RÚV.

[13:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í mínu fyrra svari er erfitt að tjá sig hér um mál einstaklinga. Að því sögðu tel ég að almennt eigi auðvitað sömu reglur að gilda á fjölmiðlum um hvernig slíkum tengslum skuli háttað og þær eiga að vera opnar og gagnsæjar. Ég minni á að í því fjölmiðlafrumvarpi sem ég mæli vonandi fyrir á næstu dögum eða vikum leggjum við m.a. til ný ákvæði til verndar blaða- og fréttamönnum, nýjar ábyrgðarreglur um vernd heimildarmanna og reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði. Ég tel ástæðu til að við ræðum það líka sérstaklega hvort á þessu þurfi að skerpa. Á Norðurlöndunum eru þekkt dæmi um það á að í kjarasamningum blaða- og fréttamanna séu sérstök ákvæði þar sem þeim er veitt aukin vernd umfram aðrar stéttir. Í Austurríki eru sérstök ákvæði um ríkisfjölmiðla þar í landi sem snúa að vernd fréttamanna. Ég held því að miklu skipti að þessar reglur séu uppi á borðum, séu að sjálfsögðu almennar og eigi við alla.