139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[16:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef minni mitt svíkur ekki var einmitt þetta lágmark lækkað verulega í meðförum þingsins á frumvarpinu á síðasta ári. Að sjálfsögðu er rétt og skylt að fara yfir öll slík fjárhæðarmörk en ég held að eðli málsins samkvæmt séu einhver neðri mörk á því hversu skynsamlegt er að fara með þetta langt niður vegna þess að þarna er um allmikið ferli að ræða, bæði úttektin og vottunin á verkefninu eins og hér er lagt til í stað fyrirtækisins áður og það er utanumhald á því af hálfu Rannís. Ég held að neðri mörk liggi í einhverjum milljónum króna, enda svarar tæpast kostnaði að vera að sækja um og hafa mikið fyrir því að sækja um 15 og núna 20% endurgreiðslu kostnaðarins nema það nemi einhverjum fjárhæðum. Ég treysti hv. þingnefnd bærilega til þess að fara yfir það hvort ástæða sé til í tengslum við þetta frumvarp núna að breyta þessu. Ætlunin var að leggja af stað og prufukeyra þetta fyrirkomulag og endurskoða það svo í heild sinni, (Forseti hringir.) eins og ég veit að hv. þingmaður man, en það hefur vafist fyrir okkur og þetta hefur tafist af ástæðum sem ég fór rækilega yfir (Forseti hringir.) í framsöguræðu minni. Nú þurfum við að finna leiðir til að hrinda þessu í framkvæmd á (Forseti hringir.) næsta ári og komast a.m.k. af stað.