139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

fundarstjórn.

[10:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég finn mig knúinn til að koma hingað vegna máls sem ég hef rætt oft undir fundarstjórn forseta, en það snýr að upplýsingagjöf frá framkvæmdarvaldinu til alþingismanna. Ég og hv. þm. Óli Björn Kárason höfum reynt núna í hálft ár að fá upplýsingar um sérfræðikostnað hjá starfsmönnum á félagsvísindasviði Háskóla Íslands og hefur það mætt ýmiss konar töfum hjá hæstv. forsætisráðherra.

Þann 15. þessa mánaðar kom hins vegar svar sem ég fullyrði að er rangt. Ég fullyrði að hæstv. forsætisráðherra sé að leyna þinginu upplýsingum. Eina leiðin í stöðu sem þessari er að fá skýrslu frá Ríkisendurskoðun um málið. Ég fer fram á það, virðulegi forseti, að hv. forsætisnefnd beini því til Ríkisendurskoðunar að láta slíka úttekt fara fram og að henni verði skilað sem allra fyrst.

Virðulegi forseti. Það snýst ekki bara um þetta mál. Það snýst um virðingu þingsins.