139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

Icesave og afnám gjaldeyrishafta.

[11:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nú er Icesave-frumvarpið í höndum fjárlaganefndar og þar situr hv. þingmaður en ekki ég. Hv. þingmaður hefur öll gögn og aðgang að þeim upplýsingum sem þar koma fram sem við þingmenn aðrir fáum væntanlega þegar málið kemur frá fjárlaganefnd og nefndarálit og fylgiskjöl koma þar fram. Ég held að við hljótum að taka þá umræðu um málið, almennt talað, þegar málið kemur aftur fyrir þingið.

Varðandi áhættu almennt í málinu er hún auðvitað jafnt og þétt minnkandi. Ég trúi að hv. þingmaður sjái það í gögnum að almennt er óvissan og áhættan minnkandi eftir því sem betur skýrist með eignir búsins og meira og meira reiðufé safnast á hendur búsins og fleiri óvissuatriðum lýkur sem þessu tengjast. En varðandi gengisþáttinn sjálfan þá þekkjum við það mál og þeim mun lægri sem heildarfjárhæðin er þeim mun minni er sá áhættuþáttur sem og, að ég held, að jákvæð og stöðug gengisþróun að undanförnu, myndarlegur afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd og fleiri slíkir þættir, ætti að gera okkur bjartsýnni á að það sé minnkandi hætta á því að við ráðum ekki við að hafa stöðugleika í gengi. Gengið er um þessar mundir u.þ.b. 20% lægra en það er að meðaltali í sögulegu samhengi. Menn hafa talið, ef eitthvað væri, væru líkurnar á því að það gæti styrkst um helming miklu meiri en hættan á því að það veiktist, nema þá mjög stutt og tímabundið í tengslum við einhver skref í afnámi gjaldeyrishaftanna. Ný áætlun um þær aðgerðir mun líta dagsins ljós í mars. Hún er í mótun og að sjálfsögðu er markmiðið að þannig verði að þessu öllu staðið að sem minnst röskun verði á stöðugleika gjaldmiðilsins.