139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[11:55]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til næstu fjögurra ára og ég þakka hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra, sem er einn og sami maðurinn, fyrir framlagningu þingsályktunartillögunnar. (SII: Velferðarráðherra.)

Jafnréttismál eru mjög mikilvægur málaflokkur en við eigum oft erfitt með að skilgreina orðið jafnrétti. Hvað felst í orðinu jafnrétti? Það er gegnsætt orð í sjálfu sér en þegar kemur að því að velta fyrir sér hvernig því er framfylgt er oftar en ekki erfitt um vik. Mér sýnist að hér séum við enn og aftur að ræða jafnrétti sem kynbundið jafnrétti og þá tökum við umræðuna út frá því.

Fyrsta atriðið í huga mínum er hvers vegna við höfum ekki náð lengra á þeirri braut en raun ber vitni þrátt fyrir alla umræðuna, þrátt fyrir öll verkefnin, þrátt fyrir allar áætlanirnar. Liggur það í verklaginu eða í samfélaginu sjálfu? Er það hugmyndafræðin að baki því hvernig við nálgumst verkefnið eða þurfum við að endurskoða frá grunni hvað veldur því að við erum ekki lengra komin á þessari braut en raunin er? Í mínum huga þarf fyrst að líta til menntakerfisins vegna þess að undirliggjandi þarf að vera fræðsla: Í hverju felst jafnrétti og af hverju er jafnrétti svo mikilvægt, bæði kynbundið jafnrétti og jafnrétti til alls þess sem við óskum okkur og stöndum frammi fyrir?

Það er algerlega ljóst að undirstöðurnar í menntamálum þjóðarinnar, í leikskólum og grunnskólum, eru afar kynbundnar. Þar eru 90% starfsmanna konur og við þurfum að velta því fyrir okkur af hverju það er vegna þess að þar eru fyrirmyndir oft mótaðar. Af hverju eru fyrirmyndirnar í grunnfræðslu samfélagsins að mestu leyti konur? Svarið er einfalt, frú forseti. Það er vegna þess að launakjörin eru eins og þau eru.

Á árum áður voru t.d. mun fleiri karlmenn í kennarastéttinni en konur. Þá nægði ein fyrirvinna í þessu samfélagi. Hún nægir ekki í dag. En karlmenn hafa leitað út úr þessari stétt. Af hverju? Vegna þess, frú forseti, að hægt og sígandi hefur launum kennara, leikskólakennara, grunnskólakennara og framhaldsskólakennara, verið þrýst niður á meðan launum annarra stétta hefur verið lyft upp. Þar með er komið ástand sem við stöndum frammi fyrir hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Því verður að breyta. Þá skulum við muna að það var ríkið sem hafði yfirumsjón með grunn- og framhaldsskólum þjóðarinnar allt fram til 1996. Ríkið, Alþingi, framkvæmdarvaldið, á sinn þátt í því að staðan innan skólanna er eins og hún er, að áherslan á menntun og þá sem vilja starfa innan menntakerfisins hefur aldrei verið metin sem skyldi á meðan menn eru tilbúnir að samþykkja að störf lækna, lögfræðinga, presta, sem karlmenn hafa frekar sótt í en konur fram til þessa, eru bæði virtari og mun betur launuð.

Frú forseti. Það felst hvorki hagfræðilegur né félagslegur ávinningur í því að innan stéttar eins og menntastéttarinnar séu 90% konur. Það er hvorki hagfræðilegur né félagslegur ávinningur fyrir samfélagið í svo kynbundinni stétt og því verður að breyta. En því verður ekki breytt nema með hærri launum, það er svo einfalt. Síðan getum við velt fyrir okkur af hverju konur sækja frekar í þessi störf en karlar vegna þess að þau eru hvorki áhættuminni en mörg önnur störf né heldur eru þau líkamlega og andlega léttari en önnur störf. Við þurfum að velta fyrir okkur hvað ræður för.

Það er algerlega ljóst í huga mínum, frú forseti, að samfélagið allt býr við karlæg sjónarmið. Karllæg sjónarmið ráða á flestum stöðum. Á hinu háa Alþingi ráða mjög karllæg sjónarmið. Það sést fyrst og síðast á því verklagi og tímalagi sem hér er. Það heyrir til undantekninga að karlmenn séu jafnstæðir konum innan fjölskyldu sinnar — það eru karlmenn innan Alþingis sem eru það en oftar en ekki er það á hinn veginn. Fundartími miðast gjarnan við karlmenn frekar en konur. Það þekkja þeir sem starfað hafa í sveitarstjórnum, á þingi eða unnið innan skólanna. Það er einfaldlega þannig. Þess vegna látum við konur oftar en ekki undan í slíkum tilvikum í staðinn fyrir að berja í borðið.

Ég er ekki að segja að karlmenn vilji ekki og ætli sér ekki að vinna og vera með fjölskyldu sinni, með börnum sínum, að þeir hafi ekki áhuga á því. Það er mér víðs fjarri. En það karllæga sjónarmið sem ræður ríkjum í þessu samfélagi gerir það hins vegar að verkum. Til að ná árangri í jafnréttismálum þurfum við með einhverjum hætti að ráðast að rót vandans. Rót vandans liggur í því að mínu mati að við vinnum ekki nægilega vel í þeirri hugmyndafræði innan fræðslugeirans að fá karlmenn þar til starfa til að takast á við þau verkefni sem þar eru.

Ég alhæfi kannski en það er skoðun mín að karllæg sjónarmið ráði för hvað varðar eiginlega allt í þessu samfélagi, því miður. Það breytir engu þótt við höfum forsætisráðherra sem er kona á meðan karllæg sjónarmið ráða í ráðuneytum og það breytir engu þó að við höfum konu sem forseta Alþingis á meðan karllæg sjónarmið ráða för í vinnulagi og verklagi.

Konur verða líka að velta fyrir sér af hverju við höfum ekki náð meiri og betri árangri í að koma sjónarmiðum okkar á framfæri. Sumir segja að það náist þó það gerist hægt. En það var sýnilegt í hruninu, frú forseti, að þar réðu karllæg sjónarmið mestu, hvort heldur var innan bankageirans, eftirlitsstofnana, ríkisstjórnarinnar, eða hvar sem er.

Við búum við kynbundinn launamun. Það vita allir hvernig hann snýr við konum og körlum. Við búum við kynbundið ofbeldi og við sjáum líka hvort kynið er frekar gerandi á því sviði, a.m.k. samkvæmt læknum og lögreglu. Það kann að vera að hitt sé falið og ætla ég ekki að draga í efa að það kunni að vera.

Ef við ætlum að hafa hagfræðilegan og félagslegan ávinning af jafnrétti í þessu samfélagi þurfum við að skoða rótina að stöðu okkar í dag. Ég tel að ástæðan fyrir því að konur eru meiri hluti starfsmanna (Forseti hringir.) á leikskóla, grunnskóla og í framhaldsskóla en karlar eru þar miklu færri sé vegna þess að launin eru lág, sú stétt hefur dregist aftur úr. (Forseti hringir.) Úr því þarf að bæta. Um leið og við náum karlmönnum (Forseti hringir.) þar inn er ekki spurning að (Forseti hringir.) hlutur jafnréttis í fyrirmyndum og (Forseti hringir.) hjá börnum verður meiri og betri.