139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

störf þingsins.

[15:48]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að greina frá því að það mál sem hv. þingmaður nefnir hefur verið til umfjöllunar í utanríkismálanefnd og fengið þar hefðbundna meðferð, verið sent til umsagnar, nefndin hefur tekið við umsögnum og við höfum rætt málið á nokkrum fundum. Nú háttar svo til að á dagskrá þessa fundar er einmitt önnur þingsályktunartillaga sem snýr að umsóknarferlinu gagnvart Evrópusambandinu, en þar er lagt til að umsókn Íslands um aðild að ESB verði afturkölluð, það er þingsályktunartillaga frá Unni Brá Konráðsdóttur o.fl. Hún er hér til umræðu í dag og mun koma til utanríkismálanefndar. Ég er þeirrar skoðunar að það sé heppilegt að þessar tillögur fylgist að út úr utanríkismálanefnd, en ég hef ásetning um að ekki verði neinn dráttur á því að utanríkismálanefnd fjalli um þá tillögu þegar hún kemur til okkar kasta. Ljúki umræðu í dag mun ég væntanlega halda fund í utanríkismálanefnd á morgun til að koma henni til umsagnar þannig að við getum áður en mjög langt um líður tekið þessar tvær tillögur sem báðar lúta að umsóknarferlinu gagnvart ESB til efnislegrar umfjöllunar í þingsal.