139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

kostnaður vegna stuðnings við fjármálafyrirtæki.

[15:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nú þarf náttúrlega að vera á hreinu hvað er nákvæmlega spurt um. Ég nefndi ekkert það sem verður fórnarkostnaðurinn af töpunum í Seðlabankanum vegna skuldabréfaviðskiptanna. Hann er að sjálfsögðu væntanlega stærsti einstaki reikningurinn. Það voru afskrifaðir 192 milljarðar vegna þess gjörnings í ríkisreikningi ársins 2008 (SDG: Síðustu tveimur …) og það er alveg ljóst að þá peninga fáum við ekki til baka. Spurningin er hversu miklu eignasafnið skilar úr því sem eftir er.

Varðandi banka og sparisjóði nefndi ég hér stærðargráður, það er ljóst að við erum einhverjum tugum milljarða ofan við 200 milljarðana í heildarfjármögnun og skuldbindingum en að langmestu leyti standa þar eignir á móti og ég tel ágætar líkur á að þær eignir skili sér að fullu. Ég held því að þegar til lengri tíma er litið eigi ekki að vera ástæða til að óttast að í þessu felist stórfelld nettó eða endanleg (Forseti hringir.) fjárútlát frá ríkinu umfram þær eignir sem á móti standa.