139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn mansali.

526. mál
[17:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að efna til þessarar mjög svo mikilvægu umræðu. Spurt er:

„Hvernig gengur að framkvæma þær aðgerðir, 25 talsins, er felast í aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn mansali sem var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar 17. mars 2009?“

Ég ætla að gera grein fyrir þeim og einkum víkja að þeim lið sem þingmaðurinn nefndi sérstaklega, þ.e. aðgerð 13.

Svarið er á þessa lund: Af þeim 25 aðgerðum hefur 14 aðgerðum verið hleypt í framkvæmd, fimm eru í vinnslu og sex hafa ekki komið til framkvæmda.

Aðgerðir sem hafa komið til framkvæmda:

Aðgerð 2: Stofnað verði teymi viðeigandi ráðuneyta, stofnana og frjálsra félagasamtaka sem hafi yfirsýn yfir mansalsmál á Íslandi og umsjón með þeim.

Aðgerð 3: Neyðarteymi starfi innan sérfræði- og samhæfingarteymis um mansal sem sé fært um að koma fórnarlömbum til aðstoðar innan 24 tíma.

Aðgerð 6: Fórnarlömbum mansals verði veitt tímabundið dvalarleyfi í skilgreindan umþóttunartíma til að gera upp hug sinn um framtíðardvalarstað og samstarf við lögreglu.

Aðgerð 7: Fórnarlömbum mansals verði á umþóttunartíma tryggt öruggt skjól og fjárhagsleg og félagsleg aðstoð.

Aðgerð 8: Fórnarlömbum mansals verði á umþóttunartíma tryggð nauðsynleg heilbrigðisþjónusta og sálgæsla.

Aðgerð 9: Þolendum mansals verði tryggð örugg endurkoma til heimalands ásamt endurhæfingu á heimaslóðum.

Aðgerð 11: Örugg heimferð ætlaðra fórnarlamba mansals undir 18 ára aldri verði tryggð.

Aðgerð 12: Verklagsreglur fyrir lögreglu.

Aðgerð 15: Fórnarlömbum í mansalsmálum verði skipaður réttargæslumaður og veitt vitnavernd og nafnleynd.

Aðgerð 16: Lagt verði fram frumvarp sem miði að því að gera kaup á vændi refsiverð.

Aðgerð 17: Lagt verði fram frumvarp til breytinga á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, sem felli brott undanþáguheimild 4. gr. laganna.

Aðgerð 19: Baráttan gegn útbreiðslu barnakláms verði efld.

Aðgerð 21: Íslensk stjórnvöld taki virkan þátt í alþjóðasamstarfi og stefnumótun sem miðar að því að koma í veg fyrir að fórnarlömb ánetjist manseljendum.

Aðgerð 22: Stjórnvöld tryggi að kaup fulltrúa íslenskra stjórnvalda á hvers konar kynlífsþjónustu verði ekki liðin.

Aðgerðir sem eru í vinnslu eru eftirfarandi:

Aðgerð 1: Undirbúningi að fullgildingu samninga — hér vísa ég til Sameinuðu þjóðanna og til samnings Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun frá 2007 — verði lokið. Að því marki sem fullgilding kallar á lagabreytingar verði frumvörp um slíkt lögð fram.

Aðgerð 4: Gerð verði heildstæð fræðsluáætlun fyrir fagstéttir og starfsfólk hins opinbera sem aðkomu hafa að mansalsmálum.

Aðgerð 5: Hlutverk frjálsra félagasamtaka við að veita fórnarlömbum mansals aðstoð verði viðurkennt og styrkt.

Aðgerð 23: Kynning fari fram á neyðarnúmerinu 112 vegna gruns um mansal.

Aðgerð 24: Sérfræði- og samhæfingarteymi um mansal komi upp skráningarkerfi um mansalsmál á Íslandi.

Aðgerðir sem ekki hafa komið til framkvæmda eru eftirfarandi:

Aðgerð 10: Aðferðir og verkferlar til að greina og styðja ætluð fórnarlömb mansals undir 18 ára aldri verði bættar.

Aðgerð 14: Rannsókn mansalsmála og vettvangseftirlit í tengslum við mansal og skipulagt vændi verði í höndum sérhæfðra lögregluteyma.

Aðgerð 18: Fræðsluherferð sem beinist að kaupendum vændis, kláms og hvers konar kynlífsþjónustu annarri verði hrundið af stokkunum.

Aðgerð 20: Eftirlit og rannsókn á skipuleggjendum, auglýsendum og öðrum sem hafa beinan eða óbeinan ábata af vændi annarra verði aukið með það að markmiði að þeir verði sóttir til saka.

Aðgerð 25: Rannsóknir á umfangi og einkennum mansals á Íslandi.

Aðgerð 13, sem er meginefni hv. þingmanns, mun ég ræða í seinna svari mínu einvörðungu.