139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[23:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ræddi þetta ferli, aðdragandann og skoðun sína á þessu stóra máli. Það sem vakti athygli mína er m.a. þegar hann sagði um þetta stórmál sem ég hef rætt hér í kvöld, um náttúruauðlindirnar, að menn hefðu náð sátt um það í sjávarútvegsendurskoðunarnefndinni að skýra það ákvæði í stjórnarskrá. Þar af leiðandi virðist einn af stóru ásteytingarsteinunum undanfarin ár vera kominn í ágætan farveg.

Vitanlega standa mörg önnur atriði eftir og við höfum sjálfsagt missterkar skoðanir á því hvað er mikilvægara og mikilvægast. Hv. þm. Pétur H. Blöndal varpaði fram spurningu áðan um 79. gr. og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skýrði afstöðu Sjálfstæðisflokksins til þeirrar greinar. Nú langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann meti það þannig að þegar búið er að ná yfirlýsingum um að menn séu tilbúnir til að semja um náttúruauðlindirnar, færa meira af völdum til þjóðarinnar, þ.e. að gera það einfaldara að efna til þjóðaratkvæðagreiðslna, hvort það sem eftir stendur, þó að það sé vissulega mikilvægt, sé þess eðlis að það þurfi að óttast sérstaklega að þingmenn geti ekki náð samkomulagi um það.