139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

jafnréttismál -- atvinnumál -- umsókn að ESB o.fl.

[14:15]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir hlý orð í minn garð. Ég er þeirrar skoðunar að brot á jafnréttislögum séu alvarleg, jafnalvarleg og brot á öðrum lögum og því sé þetta grafalvarlegt mál sem við stöndum frammi fyrir núna. Ég hafði tíma til að glöggva mig á úrskurði kærunefndar jafnréttismála í morgun. Hann er vel rökstuddur og afdráttarlaus. Það eru brotalamir í stjórnsýslu og niðurstaða kærunefndarinnar er skýr. Auðvitað kemur þar líka fram afstaða ráðuneytis eins og menn geta lesið sér til um.

Ég bind vonir við það að úrskurðinum verði fylgt eftir innan forsætisráðuneytis, innan Stjórnarráðsins og innan stjórnsýslunnar með tilhlýðilegum hætti, hvort sem það kallar á lagabreytingar eða aðrar breytingar, og ætlast til þess að menn fari að úrskurði kærunefndar jafnréttismála. (Gripið fram í: Hvað á að gera við þessa ríkisstjórn?) [Kliður í þingsal.]