139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni enn eitt dæmalausa frumvarpið frá, við skulum segja hæstv. forsætisráðherra því ekki er hægt að tala um ríkisstjórnarmál því ríkisstjórnin stendur ekki heil að baki frumvarpinu. Eins og komið hefur fram er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra algerlega mótfallinn frumvarpinu og líklega fylgismenn hans í þingsal sem tilheyra Vinstri grænum. Hæstv. innanríkisráðherra hefur mjög miklar efasemdir um frumvarpið enda kannski ekki nema von vegna þess að málefni sem undir hann heyra eru málefni allsherjarnefndar og þetta mál fer til allsherjarnefndar að loknum umræðum.

Mig langar í byrjun að benda á að hér er um mjög veigamiklar breytingar að ræða. Verið er að forsætisráðherravæða Stjórnarráðið. Verið er að taka embættisheiti af öðrum ráðherrum og því til fyllingar kemur til hliðar við þetta frumvarp annað frumvarp upp á 93 blaðsíður þar sem hvert einasta ráðherraheiti er þurrkað út úr öllu lagasafninu sem íslenska lagakerfið byggir á, hvorki meira né minna, herra forseti. Það frumvarp er upp á 545 lagagreinar, hvorki meira né minna. Mikil vinna er lögð í þetta en frumvarpið verður líklega rætt í kjölfarið á því frumvarpi sem nú er til umræðu. Ég segi enn og aftur: Er ekkert að gera hjá ríkisstjórninni annað en að leika sér? Búa til frumvarp til hliðar við þetta frumvarp upp á 545 lagagreinar? Hvar eru heimilin? Hvað með skuldamál heimilanna? Hvað með þau málefni sem skipta máli?

Hér er komið fram frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands sem Evrópusambandið fagnar mjög að sé komið fram vegna þess að nú á að slá af landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið. Þetta eru bakdyr hæstv. forsætisráðherra að því að það geti orðið að veruleika. Hæstv. forsætisráðherra hefur heimild til þess í núgildandi lögum um Stjórnarráð Íslands að breyta og fækka ráðuneytum en einhvern veginn virðist forsætisráðherra hafa brostið kjark til að stíga það skref, líklega vegna þess að þá yrði allt vitlaust í Stjórnarráðinu og ríkisstjórnin mundi líklega springa. Allir eru að bíða eftir að þessi ríkisstjórn lifi ekki mikið lengur en hér kemur hæstv. forsætisráðherra með málið inn í þingið til að láta á það reyna hvort einhverjir þingmenn úr stjórnarandstöðunni geti ekki hjálpað henni með það í gegnum þingið. Það er harla skrýtið að vera með framkvæmdarvald, tíu ráðherra, og koma fram með heildstætt frumvarp til laga um Stjórnarráðið en tveir ráðherrar styðja ekki málið. Það er mjög einkennilegt.

Mig langar að benda á það, herra forseti, sem talað er um í 2. gr. frumvarpsins. Ég ætla að fá að lesa hana upp, með leyfi forseta:

„Ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands skulu á hverjum tíma ekki vera fleiri en tíu. Fjöldi ráðuneyta innan þeirra marka skal ákveðinn með forsetaúrskurði, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, samkvæmt tillögu forsætisráðherra.“

Þarna er vísað í 15. gr. stjórnarskrárinnar en raunverulega er þar hvergi kveðið á um forsetaúrskurð þó að forsetinn sjálfur hafi þetta vald. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra sé loksins farinn að treysta forseta vorum því að svo hart kvað við á síðasta ári að þegar forseti okkar ákvað að vísa Icesave 2 í þjóðaratkvæðagreiðslu þá hvatti þessi sami forsætisráðherra landsmenn til að sitja heima. Í þessu frumvarpi virðist hæstv. forsætisráðherra hins vegar leggja mikið kapp á að forsetinn komi virkur inn í framkvæmd laganna og er það vel.

Það sem maður undrar sig kannski mest á af öllu er að síðan hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir tók við völdum í Stjórnarráðinu er sífellt verið að mylja undir sig, eins og sagt er. Verið er að sækja sér vald alls staðar úti í þjóðfélaginu, sífellt er verið að breyta lögum á Alþingi til að færa frekara vald undir forsætisráðherrastólinn. Það er eins og hæstv. forsætisráðherra átti sig ekki á því að brátt lýkur valdatíð hennar í forsætisráðuneytinu. Brátt stöndum við frammi fyrir því að stjórnmálaflokkurinn sem hún fer fyrir, Samfylkingin, verður í stjórnarandstöðu. Þá getur hæstv. forsætisráðherra sem nú situr þakkað sér að mikil völd eru komin í forsætisráðuneytið, burt séð frá því úr hvaða flokki næsti forsætisráðherra verður. En þetta er akkúrat dæmi um það sem maður hefur lesið í fræðibókum og í sögu þjóða að þegar einstaklingar komast til valda byrja þeir alltaf á að sækja sér vald. Við þekkjum hörmungarsögur úr Evrópu um þetta. Að sækja sér vald, helst að verða einráður og geta svo stjórnað og skipað fyrir úr sæti sínu. Þetta skelfir mig svolítið því þetta er svo óíslenskt. Þetta skelfir mig að því leyti að ég hélt að við ætluðum öll að læra af hruninu en svo er ekki. Hér er verið að leggja til enn frekara foringjaræði en var fyrir hrun. Hæstv. forsætisráðherra hefði átt að vera búin að læra af því, sitjandi í þessum þingsal í heil 30 ár. En nú er hennar tími líklega kominn, eins og hún hótaði á sínum tíma í ræðu. „Minn tími mun koma.“ Var það ekki orðrétt þannig, herra forseti? Nú virðist hennar tími vera kominn og birtist í þessu, að mylja undir embættið sem hún sjálf gegnir í dag árið 2011. Það er sorglegt.

Frumvarpið byggir aðallega á skýrslu sem forsætisráðuneytið, undir stjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, lét gera og var skilað í desember 2010. Skýrslan hét Samhent stjórnsýsla. Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands og er á fylgiskjali I. Þegar minnihlutastjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur tók við valdataumunum voru skipaðar nokkrar nefndir og þar á meðal þessi nefnd en kryfja átti hvað hefði raunverulega valdið hruninu og hvers vegna hlutirnir hefðu farið þannig. Hæstv. forsætisráðherra hafði þá ekki tíma til að bíða eftir því hvað kæmi út úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis vegna þess að svo mikið lá á að umbylta samfélaginu, kratavæða samfélagið eins og ég hef stundum kallað það, og koma sínu fólki á jötuna, því miður.

Mig langar að grípa aðeins niður í inngang skýrslunnar, með leyfi forseta:

„Í erindisbréfi nefndarinnar kemur fram að markmiðin með störfum hennar séu m.a. að auka sveigjanleika innan ráðuneyta og stofnana og tryggja að þekking og mannauður sé nýttur til fulls eftir því sem verkefni og áherslur breytast. Þá átti nefndin að skoða, með tilliti til verkefna hennar, hvernig auka mætti gagnsæi í vinnubrögðum innan Stjórnarráðsins og stofnana ríkisins og efla upplýsingastreymi til almennings. Þá var nefndinni gefið umboð til taka til umfjöllunar önnur álitaefni sem tengdust framangreindum sviðum og gera tillögur um þau. Jafnframt er í bréfinu tekið fram að nefndin skuli vinna greinargerðir og gera tillögur um úrbætur en lagafrumvörp á grundvelli tillagna nefndarinnar skuli í kjölfarið unnin í Stjórnarráðinu.“

Nú liggur þetta fyrir í frumvarpsformi. Hér eru skýrsluhöfundarnir nafngreindir. Það stingur mig mjög hversu einstaklega fáir lögfræðingar unnu frumvarpið. Það sem mér finnst svo ábótavant eftir hrunið er að samanburð við nágrannalöndin vantar, samanburð við þau lönd sem við berum okkur venjulega saman við. Ég hef sjálf tamið mér slíkan samanburð, leggi ég fram frumvörp. Íslendingar eiga ekki að finna upp hjólið þrátt fyrir það að hæstv. forsætisráðherra telji sig vera að því nú og byggi frumvarpið á þessari skýrslu. Hvers vegna er ekki í frumvarpinu samanburður við nágrannalöndin, við Danmörku og Noreg, við Norðurlöndin og þau lönd sem við höfum mestmegnis sótt okkar löggjöf til?

Sífellt rekur maður sig á sömu mistökin og ekki virðist skipta máli hvaða flokkar skipa ríkisstjórn. Þegar komist er til valda eru þessi grundvallaratriði hunsuð. Þegar nýir vendir koma inn í ráðuneytin, og þá sérstaklega forsætisráðuneytið, virðist hver ráðherra telja að sínir vendir sópi best. En eftir að þessi verklausa ríkisstjórn tók við hefur frumvarp eftir frumvarp sem hún hefur lagt fram verið rekið heim til föðurhúsanna einfaldlega vegna þess að frumvörpin eru ekki nægilega vel unnin. Þetta er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Þegar við þingmenn leggjum til að stofna lagaskrifstofu Alþingis til að bæta um og til að á borð þingmanna komi frumvörp sem standast stjórnarskrá og önnur lög, er því hafnað. Í staðinn hljóp hæstv. forsætisráðherra af stað og stofnaði lagaskrifstofuna í forsætisráðuneytinu undir sjálfri sér, undir eigin embætti. Nú liggur tilboð inni í allsherjarnefnd frá formanni allsherjarnefndar um að frumvarp um lagaskrifstofu Alþingis verði ekki tekið út úr allsherjarnefnd heldur fari vinsamlegast, tilboðið hljóðar svo til mín, til svokallaðrar þingskapanefndar sem hér starfar. Það á með öðrum orðum, herra forseti, að svæfa málið þar.

Líklega er mesti vandi ríkisstjórnarinnar að góðar hugmyndir eru ekki vel þegnar og þeim er ekki vel tekið því ríkisstjórnin á ekki sjálf þær hugmyndir. Þá þarf að finna hjáleiðir fyrir góðar tillögur og koma þeim á einhvern annan hátt inn í þingsali eða þeim hugmyndum er bara hafnað, samanber að tillögum Framsóknarflokksins um 20% niðurfærslu lána var algerlega hafnað af þessari verklausu ríkisstjórn. Nú hafa allir séð að það var eina rétta leiðin sem var fær en vegna þrjósku og þvermóðsku var ekki hægt að taka þær tillögur til greina, líklega vegna þess að þær komu frá Framsóknarflokknum.

Svona er staðan, herra forseti. Það er dapurt hvernig þetta er unnið. Það er einkennilegt að hafa frumvarp fyrir framan sig þar sem ekki er nokkurs staðar minnst á ráðherra nema undir þessu almenna heiti, ráðherra, en forsætisráðherra til glaðnings hafa frumvarpshöfundar sett forsætisráðherratitilinn hvorki meira né minna en 14 sinnum í frumvarpið í 27 lagagreinum. Mér hefur ekki gefist tími til að telja hvað forsætisráðherraheitið kemur oft fyrir í greinargerðinni og þar sem er fjallað um einstakar greinar. Ég verð líklega með það í 2. umr. Það er einmitt verið að mylja undir foringjaræðið og forsætisráðherra einn í þessu frumvarpi.

Það er líka frekar dapurt að svo veik ríkisstjórn sem raun ber vitni sitji við völd í landinu og getur raunverulega ekki stjórnað því hún hefur ekki til þess þingmeirihluta. Stólað er á fólk úr öðrum flokkum og nú þegar hefur einn þingmaður gengið til liðs við ríkisstjórnina úr flokki sem hét einu sinni Borgarahreyfingin. Líklega hangir meiri hlutinn á þessum þingmanni eða þá þeim tveimur ráðherrum sem ekki vilja bekenna þetta frumvarp. Þeir ráðherrar sem eru á móti frumvarpinu átta sig að sjálfsögðu á því, eins og þingheimur allur, að verið er að reyna að breyta Stjórnarráðinu til að þóknast Evrópusambandinu og hægt sé að leggja niður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið, okkar mikilvægasta ráðuneyti sem stendur vörð um auðlindir Íslands og landbúnaðinn sjálfan. Svona eru vinnubrögðin, herra forseti. Ég skrifaði blaðagrein um daginn og ég ætla að gera lokaorð hennar að lokaorðum mínum, herra forseti. „Það sjá allir að keisarinn er ekki í fötum.“