139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:52]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var einstaklega ánægjulegt að hæstv. forsætisráðherra skyldi koma upp í andsvar við mig því að oft og tíðum er það svo að talað er í upphafi og svo í lokin. Greinilega snerti ég viðkvæma strengi hjá hæstv. forsætisráðherra því að það var frekar mikill reiðitónn í rödd hennar og hún hvatti mig til að athuga hve mörg verkefni hefðu verið færð úr forsætisráðuneytinu síðan hún tók við. Ekki skal ég segja til um það. Ef hæstv. forsætisráðherra treystir sér ekki til að sinna þeim verkefnum sem að forsætisráðuneytinu snúa og þarf að úthýsa þeim, eins og hún fullyrðir, er það hennar mál. En ég veit að fjárstjórnarvaldið er t.d. farið úr ráðuneytinu. Í staðinn voru jafnréttismál tekin inn. Siðareglur hefur hæstv. forsætisráðherra sett, en ég er ekki viss um að þær siðareglur séu í gildi. Jú, ég man eftir einu öðru, hæstv. forsætisráðherra lagði drög að því að setja siðareglur fyrir forsetann, að mig minnir.

Dreifing á valdi úr ráðuneytinu sem hæstv. forsætisráðherra var að tala um að ætti sér stað — þetta frumvarp felur ekki í sér nokkra einustu dreifingu á valdi, það er bara svoleiðis. Ég held að hæstv. forsætisráðherra ætti frekar að lesa þetta með öðrum gleraugum og taka undir með mér.

En úr því að hæstv. forsætisráðherra leggur svo mikið upp úr því að starfa í þeim anda sem ríki Evrópusambandsins gera langar mig að spyrja hana: Verður þessi breyting á Stjórnarráðinu til þess að hæstv. forsætisráðherra leggi niður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið, sameini það iðnaðarráðuneyti og geri að (Forseti hringir.) einu atvinnuvegaráðuneyti? Nú hefur forsætisráðherra tækifæri til að svara því.