139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:31]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði áðan. Í raun og veru heyri ég ekki betur en að sú gagnrýni sem þetta frumvarp hefur hlotið sé í raun og veru — menn eru að skjóta fram hjá. Hér hefur ekki verið um efnislega gagnrýni að ræða. Menn segja að í frumvarpinu séu forsætisráðherra færð aukin völd en eins og ég rakti áðan eru breytingarnar sem hér eru lagðar fram í anda stjórnarskrár Íslands.

Og að um sé að ræða aðför að tilteknum ráðherra? Menn gleyma því þá og hoppa væntanlega yfir það að forsætisráðherra sækir vald sitt til meiri hluta þingmanna. Hann þarf að byggja vald sitt á því stjórnarsamstarfi sem um ræðir og við á vettvangi þingflokka höfum að sjálfsögðu okkar að segja um hverjir verða ráðherrar o.s.frv.

Ég legg áherslu á það að við eigum að fjalla efnislega um þetta mál. Það gerist í þingnefndinni sem tekur á málinu og við skulum reyna að hafa umræðuna þannig í þessum sal.