139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

ökutækjatryggingar.

711. mál
[20:50]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ökutækjatryggingar á þskj. 1230, 711. mál. Með þessu frumvarpi er lagt til að sett verði sérlög um ökutækjatryggingar og bótaábyrgð vegna tjóns af völdum vélknúinna ökutækja. Hér er um að ræða heildarlög og er frumvarpið allnokkurt að lengd, þ.e. 27 greinar.

Hér er um að ræða þá nýbreytni að sett séu sérlög um ökutækjatryggingar og bótaábyrgð vegna tjóns af völdum vélknúinna ökutækja. Ákvæði um þessi atriði er nú að finna í XII. kafla gildandi umferðarlaga og í reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar. Ég tel að svo hafi reyndar alltaf verið.

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til nýrra umferðarlaga og er þar ekki gert ráð fyrir sérstökum ákvæðum um ökutækjatryggingar. Meginmarkmið frumvarpsins er aukið umferðaröryggi vegfarenda og sú meginregla sett og skýrð að í gildi sé ávallt ábyrgðartrygging vegna ökutækja. Einnig er markmið frumvarpsins að tryggja að þeir sem vátryggingarskylda beinist að hafi ávallt í gildi vátryggingu til að lágmarka þann kostnað sem ella lendir á þeim sem slíka vátryggingu hafa.

1. júlí 2008 skipaði þáverandi viðskiptaráðherra nefnd sem falið var það verkefni að semja frumvarp til laga um ökutækjatryggingar sem kæmi í stað XII. kafla umferðarlaganna. Var þetta hluti af endurskipulagningu þar sem löggjöfin um fjármálamarkaðinn og tryggingaþættina var sérgreindari í viðskiptaráðuneytinu í stað þess að þessi tryggingakafli væri inni í hinum almennu umferðarlögum. Í nefndinni sátu meðal annars sérfræðingar á grundvelli tilnefninga frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Samtökum fjármálafyrirtækja og Fjármálaeftirlitinu Meginverkefni nefndarinnar var að færa reglur XII. kafla umferðarlaganna í sérstök lög og semja ný lagaákvæði sem af þeirri breytingu leiddu. Vegna tengsla við ákvæði umferðarlaga, bæði hvað varðar skilgreiningar, fyrirkomulag skráningar og skoðunar ökutækja, voru haldnir sameiginlegir fundir með þeirri nefnd sem vann á sama tíma að heildarendurskoðun umferðarlaga.

Nefndin sem falið var að semja frumvarp til laga um ökutækjatryggingar skilaði niðurstöðum sínum til ráðherra í frumvarpsformi og voru drögin birt á heimasíðu ráðuneytisins til að gefa almenningi kost á því að koma á framfæri athugasemdum. Að teknu tilliti til ábendinga sem fram komu, svo og þess að Evrópusambandið hefur gefið út nýja tilskipun um ökutækjatryggingar, nr. 103/2009, hafa verið gerðar nokkrar breytingar á frumvarpsdrögum nefndarinnar sem nánar eru rakin í almennum athugasemdum við frumvarpið. Eru þær helstar að tilskipun 103/2009 leggur þá skyldu á herðar aðildarríkjum að sjá til þess að þeir sem verða fyrir tjóni af völdum ökutækja fái bætur og er enginn greinarmunur gerður á því hvort viðkomandi ökutæki er skráningarskylt eða ekki. Frumvarpið fylgir framsetningu tilskipunarinnar að þessu leyti. Mikilvægt er að í frumvarpi til nýrra umferðarlaga verði það skilyrði að öll ökutæki sem valdið geta tjóni séu skráningarskyld svo unnt sé að fylgjast með því að þau séu ábyrgðartryggð. Án skráningarskyldu er allt eftirlit með þessu útilokað.

Lagðar eru jafnframt til miklar breytingar á ákvæðum um vanskil og úrræði vátryggjenda. Í umferð munu vera yfir 5.000 óvátryggð ökutæki miðað við tölur frá því í janúar sl. Ásamt því að þessi tæki séu óvátryggð er stór hluti þeirra jafnframt óskoðaður enda gild vátrygging forsenda skoðunar. Óverjandi er að sá meiri hluti ökutækjaeigenda sem hefur sín ökutæki vátryggð skuli þurfa að greiða hærri iðgjöld sem leiðir af kostnaði vátryggingafélaga við að standa undir greiðslu bóta til þeirra sem orðið hafa fyrir tjóni af völdum óvátryggðra ökutækja.

Í frumvarpinu er lagt til að Umferðarstofa hafi heimild til að láta kyrrsetja eða fjarlægja óvátryggð ökutæki og þau sem iðgjald hefur ekki verið greitt af. Jafnframt er gert ráð fyrir því að Umferðarstofa hafi heimild til að fela viðkomandi tryggingafélagi eða öðrum aðila að framkvæma þessi úrræði. Þá er lagt til að vátryggingafélag beri ábyrgð gagnvart þriðja manni á tjóni sem fellur undir ábyrgðartryggingu ökutækis í tiltekinn tíma frá því að hún fellur úr gildi en slíkt eigi ekki við um slysatryggingu ökumanns.

Þær breytingar sem felast í frumvarpinu frá núverandi fyrirkomulagi eru ekki víðtækar þrátt fyrir að formbreytingin sé umtalsverð þegar sett eru sérlög í stað þess að ákvæði um ökutækjatryggingar sé að finna í XII. kafla umferðarlaga. Breytingarnar byggjast að mestu á ökutækjatryggingatilskipun Evrópusambandsins. Í fyrsta lagi er gildissvið reglna um skaðabótaábyrgð og vátryggingarskyldur rýmkað þannig að það nái til ökutækja eins og þau eru skilgreind í ökutækjatilskipun Evrópusambandsins. Tilskipunin tekur enga afstöðu til skráningarskyldu ökutækja en leggur þá skyldu á aðildarríkin eins og fyrr var rakið að þau tryggi að ökutæki séu tryggð ábyrgðartryggingu sem bæti bæði líkams- og munatjón. Skilgreining á hugtakinu ökutæki er nokkuð víðtækari en skilgreining umferðarlaga. Eins og áður sagði er til meðferðar í þinginu frumvarp til umferðarlaga, flutt af innanríkisráðherra, og er í því fjallað um skráningarskyldu ökutækja. Mikilvægt er að tryggt verði eins og rakið var áður að þau ökutæki sem vátryggingarskyld eru samkvæmt tilskipuninni verði með einhverjum hætti gerð skráningarskyld í nýjum umferðarlögum.

Samgöngunefnd Alþingis er með frumvarp til umferðarlaga til umfjöllunar og hefur ráðuneytið sent nefndinni athugasemdir um þetta atriði. Er vert að vekja athygli á því að mikilvægt er að samgöngunefnd gæti að þessu við meðferð þessa frumvarps til nýrra umferðarlaga sem nú er til vinnslu og meðferðar í nefndinni.

Í öðru lagi er lagt til að í lögunum verði reglur um atriði sem nú eru eingöngu í reglugerð en rétt þykir í ljósi seinni tíma sjónarmiða um réttaröryggi að þau verði felld inn í lögin. Það er eðlilegt að lagastoð sé skýr og að sum efnisákvæði séu frekar í lögum en í reglugerð og full ástæða til að gera slíka breytingu þegar færi gefst nú við setningu nýrra heildarlaga. Hér má nefna reglur um lok vátryggingar og tjón af völdum óvátryggðra og óþekktra ökutækja.

Í þriðja lagi eru lögð til öflugri úrræði vegna óvátryggðra ökutækja. Verður Umferðarstofu veitt heimild til að kyrrsetja eða fjarlægja ökutæki á kostnað eiganda eða umráðamanns ökutækis hafi vátryggingariðgjald ekki verið greitt innan tilskilins frests. Eru úrræði þessi nauðsynleg viðbrögð við þeirri miklu aukningu óvátryggðra ökutækja í umferð sem áðan var vikið að. Eins og rakið var hljóta óvátryggð ökutæki ekki skoðun og því er ekki unnt að ganga úr skugga um að vegfarendum stafi ekki hætta af notkun þeirra.

Í fjórða lagi er lögð til rýmkun á fyrningarreglum. Lagt er til að núgildandi fjögurra ára fyrningarfrestur vegna krafna um bætur vegna líkamstjóns verði lengdur í tíu ár. Rökin fyrir þessu eru sú óvissa sem er til staðar um mat á upphafi fyrningarfrests í þeim málum. Á undanförnum árum hefur málum fjölgað fyrir dómstólum þar sem deilt hefur verið um upphaf þessa frests. Virðist ekki hafa verið fullt samræmi í niðurstöðum dóma hvað þetta álitaefni varðar.

Eins og segir í greinargerð um 22. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á fyrningarreglum. Í 99. gr. núgildandi umferðarlaga er mælt fyrir um tvenns konar fyrningarfrest, annars vegar fjögurra ára frest og hins vegar tíu ára frest. Um upphaf fyrningarfrestsins gilda tvær reglur, fjögurra ára fresturinn byrjar að líða við lok þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar en tíu ára fresturinn er hins vegar óháður mati á vitneskju kröfuhafa. Hann byrjar að líða þegar tjónsatburður verður. Í frumvarpinu er lagt til að fjögurra ára fresturinn gildi ekki um kröfur um bætur vegna líkamstjóns. Um þær kröfur gildi alfarið tíu ára fyrningarfrestur sem byrji að líða þegar tjónsatburður verður. Tíu ára fyrningarfestur framlengist ekki.

Rökin fyrir tillögu um breytingu á fyrningarreglum eru einkum eðli líkamstjónsmála og sú óvissa er varðar mat á upphafi fjögurra ára fyrningarfrests í þeim málum. Eins og ég rakti áðan virðist ekki hafa verið fullt samræmi í niðurstöðum dóma hvað þetta álitaefni varðar í einstökum málum og má því telja að nokkur réttaróvissa ríki sem sé mjög óheppilegt. Með því að miða upphaf fyrningarfrests við tjónsatburði er þessari óvissu eytt.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið þær breytingar sem gert er ráð fyrir að verði á efnisreglunum um ökutækjatryggingar með þessu nýja frumvarpi sem verður, eins og ég rakti, ef að lögum verður, fyrstu heildarlögin um ökutækjatryggingar. Ég legg því til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.