139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

Schengen-samstarfið.

779. mál
[16:33]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi síðustu á ábendingar. Mér fyndist eðlilegt að það væri hluti af þeirri rannsókn á Schengen og afleiðingum þess fyrir Ísland sem mælt hefur verið fyrir í þinginu. Sú rannsókn færi væntanlega fram á vegum þingsins og við þyrftum að sjálfsögðu að sammælast um að tryggja fjármuni til hennar því þetta kostar sitt. Ég tel að þetta geti skipt miklu máli.

Við höfum tvisvar gripið inn í Schengen-ferlið með því að setja á persónubundna skoðun. Það var í tvígang þegar félagar í Hells Angels glæpasamtökunum voru stöðvaðir á Keflavíkurflugvelli og snúið til baka. Þetta hefur verið gert og fyrir þessu hefur formaður norska lögreglusambandsins verið að tala að undanförnu eins og kom fram í máli fyrirspyrjanda í upphafi umræðunnar. Þetta eru þættir sem við hljótum að skoða.

Varðandi heimsendingu fanga þá gilda samningar um það efni. Gengið hefur stirðlega að framfylgja þeim gagnvart sumum Eystrasaltsríkjanna og við erum að reyna að koma þeim í betri farveg gagnvart Póllandi. Ásetningurinn er að reyna að koma einstaklingum sem sitja í íslenskum fangelsum sem fyrst til síns heima. Að því er unnið.