139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

launagreiðslur til stjórnenda banka og skilanefnda.

[10:51]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra er vel kunnugt um að til að þingmenn geti lagt fram fyrirspurnir til ráðherra þarf forseti Alþingis að skrifa upp á að þær séu tækar til að leggja fram. Þegar forseti Alþingis hefur gert það og fyrirspurnir eru þannig komnar fram ber ráðherrum að svara þeim og þeir eiga ekkert að komast undan því. Þeir verða að svara þeim fyrirspurnum, jafnvel þótt verið sé að biðja um upplýsingar sem þeir kunna að þurfa að láta vinnu í að safna saman fyrir sig.

Í svarbréfi Fjármálaeftirlitsins virðist það koma fram að stofnunin hafi ekki aðrar upplýsingar um það sem spurt er um en þær sem hafi komið fram opinberlega, svo sem í ársreikningum fjármálafyrirtækja. Hefur Fjármálaeftirlitið sem sagt ekki þær upplýsingar þá hjá sér og getur það ekki með þeim mannafla sem það hefur nú yfir að ráða, og fengið aukningu að frumkvæði Alþingis, tekið saman þær upplýsingar og lagt þær hér inn í þingið þannig að þær komi á þingskjölum?

Ef það á að vera þannig að hægt sé að taka tvo mánuði í að segja þingmönnum að ekki sé hægt að svara fyrirspurn þeirra, þá segi ég einfaldlega í þessu tilfelli að þessi fyrirspurn verður endurflutt, (Forseti hringir.) hugsanlega með einhverjum breytingum og þess krafist að ráðuneytið svari henni.