139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[14:25]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Lögum um sjávarútveg hefur ekki verið breytt. Tvö frumvarp hafa verið lögð fram er snerta þessa undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Það hefur verið boðað að taka eigi nokkra mánuði í að vinna þá vandasömu löggjöf. Ég ætla mér að taka þátt í því.

Það er hins vegar mjög margt við frumvörp stjórnarinnar að athuga. Svo ég nefni nokkra þætti vil ég til að mynda vara við því að menn loki algjörlega á framsalið. Ég hefði viljað sjá ákveðnar takmarkanir á framsalinu og kannski meiri byggðafestu en verið hefur. Það hefur sviðið mér hvað mest að horfa upp á að menn geti selt úr heilu byggðarlögunum allar veiðiheimildir yfir nótt. Ég hefði viljað sjá í þeim nýtingarsamningana sem við framsóknarmenn höfum talað um að gera við útgerðina til 20 ára samkvæmt nýsamþykktri stefnu flokksins, að slíku ákvæði eða slíkum takmörkunum væri komið þar inn.

Það er líka mjög varhugavert að ætla að minnka þá langtímahugsun sem hefur verið í kerfinu. Ef menn hafa þessar heimildir til mjög skamms tíma hverfur sú hugsun sem hefur verið að hámarka nýtingu stofna til lengri tíma litið. Ég geld varhuga við því að menn hverfi frá þeirri hugsun.

Fyrir utan það sýnist mér, verði þessi frumvörp að veruleika, að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra yrði einn valdamesti maður landsins. Hann gæti úthlutað fiskveiðiheimildum hægri, vinstri af miklum geðþótta fram hjá Alþingi, (TÞH: Aðallega til vinstri.) aðallega til vinstri, segir hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, ekki veit ég um það.

Málið er komið hingað og er mikilvægt að við tökum það föstum tökum og ræðum það málefnalega. Það eru fjölmargir gallar á frumvarpinu sem verður að leiðrétta. (Forseti hringir.) Helst hefði ég viljað að við tækjum þetta fyrir á vettvangi þingsins og skoðuðum þessi mál frá upphafi.