139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[11:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það ætti að vera ljóst að okkur sem hér störfum er öllum annt um fullveldi landsins, að við séum ekki að gefa frá okkur einhver af þeim úrræðum sem við höfum til að gegna skyldum okkar sem þingmenn og til að vinna að málefnum lands og þjóðar.

Ég hjó hins vegar eftir því að umræðan um fullveldið var eðlilega meira tengd umræðunni um það hvort samningurinn stæðist stjórnarskrá. Að sama skapi hljóta þá þeir fyrirvarar eða þau úrræði sem sett voru varðandi samþykkt Íslands að hluta til að endurspeglast í því að geta komið í veg fyrir að ákveðnar gerðir, sem hugsanlega brytu þá í bága við stjórnarskrá, yrðu í það minnsta innleiddar.

Hv. þingmaður hefur reynslu af því að sitja í ráðherrastól og gegndi embætti ráðherra um skeið. Hann hefur þar af leiðandi reynslu, sem mörg okkar hafa ekki, af því hvernig þessar gerðir eða samþykktir berast framkvæmdarvaldinu, berast ráðuneytunum. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort sú fullyrðing hans sem hér hefur komið fram, að við höfum tækifæri til að beita okkur á fyrri stigum eða hafa áhrif á þær gerðir sem sendar eru til okkar, byggi á reynslu hans úr ráðuneytinu. Jafnvel væri forvitnilegt að fá einhver dæmi upp, ef hann man einhver slík, en ég geri þó enga kröfu um það. En áhugavert væri að heyra hlið hv. þingmanns varðandi þetta.