139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[12:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skildi orð hæstv. ráðherra á sama hátt og hv. þingmaður. Það kann að vera að hæstv. ráðherra hafi einhver markmið sem við þekkjum ekki hér, enda höfum við séð að hæstv. utanríkisráðherra talar stundum á við 20% í það minnsta en ekki tæplega 1%. Það getur vel verið að eitthvað slíkt búi hér að baki.

Að mínu viti þurfum við að herða okkur í þinglegri meðferð EES-mála, eins og fram hefur komið. Ég held hins vegar að það sé rangt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að við þurfum að taka allt upp hvað sem tautar og raular. Við höfum dæmi um að stjórnvöld hafi staðið í lappirnar. Má þar nefna dæmi um innflutning á hráu kjöti, svo eitthvað sé nefnt.