139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Okkur greinir ekkert á um það, mig og hv. þingmann, að auðvitað er það takmörkun gæðanna sem leiðir til verðmætanna og auðvitað verður alltaf um að ræða einkaleyfi til þeirra sem það sækja. Það sem er óskiljanlegt er að hv. þingmaður, sem hefur verið talsmaður frjáls markaðar, framtaks einstaklingsins og atvinnufrelsis, skuli tala fyrir því að þessi einkaleyfi eigi að vera í lokuðu ævarandi kerfi útvalinna en tali gegn því að þau séu boðin upp á almennum opnum markaði þar sem frjálsir einstaklingar með framtaki sínu og frumkvæði geti keppt á jafnræðisgrundvelli um að bjóða í þau verðmæti sem hin takmörkuðu gæði eru.