139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Flokkssamþykkt okkar framsóknarmanna hefur verið talsvert til umræðu sem hugsanlegur grundvöllur sáttaleiðarinnar. Þingmenn Samfylkingarinnar, margir hverjir, hafa komið upp hver á fætur öðrum og lýst yfir ánægju sinni með það sem þar stendur og sameiginlegan flöt á milli okkar ályktunar og frumvarpanna. Ég hef reyndar komið nokkrum sinnum upp og reynt að lýsa því hversu mikill munur þar er á. Við erum á leiðinni með þingsályktunartillögu sem grundvallast á þessari flokkssamþykkt okkar um stefnu í sjávarútvegsmálum þar sem við leggjum það einmitt til að ráðherra verði falið að setja þetta í samráðsvettvang aftur til þess að við náum að klára þetta í sátt og samlyndi. Við þingmenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks erum hér fyrst og fremst að ræða galla þess og einstaka stjórnarþingmenn hafa flutt ræður en meira verið í andsvörum og kannski hefur umræðan fyrir vikið ekki þróast nægilega langt. Þó hefur komið fram að ansi margir finna þessu frumvarpi flest til foráttu, og reyndar hinu frumvarpinu sem ekki er farið að ræða hér enn.

Þess vegna langar mig að spyrja þingmanninn hvort hún eða Sjálfstæðisflokkurinn gætu hugsanlega séð fyrir sér þá leið að menn settust aftur yfir þetta í slíku ferli og grundvalla það þá meðal annars á tillögum okkar framsóknarmanna og auðvitað einhverjum þeim tillögum sem við teljum nothæfar í þessum frumvörpum. Þó að flestar greinarnar séu þess eðlis að við viljum ekki sjá þær er eitthvað kannski nothæft (Forseti hringir.) og við gætum fundið leið sem meginhluti (Forseti hringir.) þingmanna sætti sig við.