139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

matvælaöryggi og tollamál.

[15:31]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Það verður ekki þannig, eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson heldur fram, að öll matvælaframleiðsla leggist af ef innflutningur verður leyfður. Það er ekki á þeim nótum sem þessi umræða ætti að fara fram. Ég fagna því sem hv. þm. Magnús Orri Schram sagði um að kerfið væri komið í ógöngur, það er komið út í horn og það þarf að stokka það upp, en það þarf að sjálfsögðu að stokka það upp með það í huga að hér verði áfram innlend matvælaframleiðsla en á öðrum forsendum en í dag.

Með innflutningi á matvælum, hvort sem um er að ræða kjöt, grænmeti eða annað, á að sjálfsögðu að fylgja upprunavottorð. Íslenskir neytendur eiga að geta séð það í kjötborðum þeirra verslana þar sem þeir versla hvaðan kjötið kemur. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum er það ekki í dag? Menn kaupa nautakjöt úti í búð og hafa ekki hugmynd um hvaðan það er. Það er vegna þess að landbúnaðarráðherra hefur ekki beitt sér fyrir reglugerð þannig að það yrði merkt og Íslendingar gætu þá keypt sér íslenskt nautakjöt ef þeir vildu.

Það þarf að vera rekjanleiki fyrir neytendur. Ég hef engar efasemdir um að Íslendingar mundu í langflestum tilfellum kaupa íslenskar vörur svo fremi þeir hefðu möguleika á að greina á milli þeirra og annarra. Því er hægt að koma á með einfaldri reglugerðarbreytingu.

Þetta þarf líka að komast í gagnið hvað varðar erfðabreytt matvæli og merkingar á þeim, en enn einu sinni hefur hæstv. landbúnaðarráðherra gengið á hagsmuni neytenda í því máli með því að fresta reglugerð um merkingar á erfðabreyttum matvælum til áramóta. Þetta er ótrúleg framganga hjá manni sem þykist bera hag neytenda fyrir brjósti.

Fæðuöryggi er byggðamál og líka hagsmunamál almennings. Möguleikar á innlendri framleiðslu verða að vera fyrir hendi, en fæðuöryggi byggist að stórum hluta á því að viðskipti við útlönd eigi sér áfram stað. Þar verðum við að tryggja jafnvægi og við verðum að koma á betra jafnvægi en því ójafnvægi sem er til staðar í dag í kerfinu.