140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[13:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012 og fór hæstv. fjármálaráðherra ítarlega yfir umgjörð þess, forsendur og áherslur. Í frumvarpinu eru gefin fyrirheit um að við séum að komast út úr niðurskurðartíma og að á árunum 2013–2015 munum við að mestu ná heildarjöfnuði með auknum tekjum vegna hagvaxtar. Með frumvarpinu er lögð fram ný ríkisfjármálaáætlun sem felur í sér mildari aðlögun en gert var ráð fyrir í upphafi og er nú gert ráð fyrir jákvæðum heildarjöfnuði árið 2014 í stað ársins 2013 áður. Í áætluninni er gert ráð fyrir að skatttekjur sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verði tæplega 27% á árinu 2011 og haldist nær óbreyttar til ársins 2015, en í fyrri áætlun var gert ráð fyrir að hlutfall skatta af landsframleiðslunni yrði hærra eða 29%. Í nýrri áætlun er einnig gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna launahækkana og hækkunar bóta almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga. Þá eru aukin útgjöld til ýmissa fjárfestinga og framlaga til vinnumarkaðs- og menntamála.

Á næsta fjárlagaári munum við afla nýrra tekna sem nema um 21 milljarði en þar af eru um 9 milljarðar einskiptisaðgerð. Ef forsendur nýrra kjarasamninga halda um verulega aukningu fjárfestinga mun hagvöxtur aukast og þar með tekjur ríkissjóðs. Á móti lækka skatttekjur vegna lækkunar tryggingagjalds og breytinga á ýmsum sköttum fyrirtækja.

Niðurskurðinum er hins vegar ekki lokið og á þessu ári er gert ráð fyrir niðurskurði sem nemur 8,6 milljörðum í stað 28 milljarða á yfirstandandi ári. Ég dreg enga dul á að það verður erfitt að ná fram fyrirætluðum niðurskurði þó að hann kunni að virka lítill, enda hefur mikið verið skorið niður í rekstri, tilfærslum og stofnkostnaði á síðustu árum. Alls munu rekstrargjöld lækka um 4,4 milljarða vegna aðhaldsaðgerða sem gerir um 2,2% lækkun miðað við fjárlög 2011. Þá munu aðhaldsaðgerðir í rekstrar- og tekjutilfærslum spara ríkissjóði tæpa 4 milljarða.

Fjárlaganefnd mun fara gaumgæfilega yfir tillögur frumvarpsins með það að leiðarljósi að niðurskurðurinn vegi ekki að grunnstoðum opinberrar þjónustu en mikilvægt er að halda því á lofti að okkur hefur tekist að standa vörð um velferðarkerfið þrátt fyrir erfiðan niðurskurð.

Ég hef stundum sagt að við þurfum að skera niður í velferðarþjónustu og annarri opinberri þjónustu til að verja velferðarkerfið. Sá erfiði niðurskurður sem hefur skilað okkur 140 milljarða viðsnúningi á frumjöfnuði hefur varið kerfið og tryggt að til framtíðar fari ekki sífellt stærra hlutfall af tekjum ríkissjóðs í að greiða vexti og afborganir af skuldum sem lögðust á ríkissjóð af miklum þunga vegna hrunsins og í kjölfarið vegna halla á ríkissjóði. Áætlað er að skuldir ríkissjóðs muni nema um 1.400 milljörðum í árslok 2012. Vaxtakostnaður ríkissjóðs er áætlaður 78,4 milljarðar á næsta ári. Að mínu mati er mikilvægt að fjárlaganefnd veiti skuldastýringu ríkissjóðs fulla athygli og hafi eftirlit með því að þessi stóri útgjaldaliður, arfleifð hrunsins og óstjórnar, verði undir eftirliti nefndarinnar. Rétt skuldastýring getur sparað okkur umtalsverða fjármuni sem hægt er að nota til að greiða niður skuldir og fjármagna mikilvæga opinbera þjónustu.

Til að ná niður halla eru þrjár leiðir færar: Niðurskurður, tekjuöflun og tekjuaukning með hagvexti. Við erum öll sammála um að gott sé að hagvöxtur drífi áfram tekjuöflun ríkissjóðs en sú staða sem við vorum í haustið 2008 krafðist niðurskurðar og tekjuöflunar með nýjum sköttum. Þessi ríkisstjórn, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, var með mjög skýra forgangsröðun í niðurskurði sem hefur miðað að því að verja velferðarkerfið og grunnþjónustu samfélagsins. Þá er ég mjög stolt af þeim leiðum sem valdar hafa verið við öflun skatttekna og fagna því að með nýjum áherslum vinstri stjórnar hefur skattbyrði þeirra heimila sem hafa lægri tekjur lækkað sem hlutfall af tekjum.

Á síðasta þingi lagði fjárlaganefnd undir forustu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur grunninn að breytingu á úthlutun styrkja til félaga, samtaka og einstaklinga á þann veg að Alþingi hættir árið 2012 úthlutuðu á styrkjum til ýmissa verkefna til félaga, samtaka og einstaklinga eins og verið hefur. Alþingi mun áfram ákvarða umfang styrkja til einstakra málaflokka en úthlutun þeirra mun flytjast til ráðuneyta, lögbundinna sjóða, menningarráða landshluta eða annarra sem sjá um og bera ábyrgð á viðkomandi málaflokkum. Ráðuneytin munu einungis úthluta styrkjum til verkefna sem falla undir málefnasvið þeirra að svo miklu leyti sem þau falla ekki undir lögbundna sjóði eða samninga, svo sem menningarsamninga eða vaxtarsamninga. Því er mikilvægt að umsækjendur kynni sér vel hvaða ráðuneyti ber ábyrgð á þeim málaflokki sem verkefni umsækjanda um styrk fellur undir.

Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að efla með þessum hætti starf fjárlaganefndar. Það má segja að nefndin hafi dregið úr baunatalningarhlutverki sínu og muni því geta aukið hið mikilvæga eftirlitshlutverk sitt. Ég tel rétt að það komi skýrt fram að fjárveitingar til þeirra samtaka, félaga og fyrirtækja sem um er að ræða eru mjög mikilvægar styrkveitingar af hálfu ríkissjóðs en ég hef efasemdir um, rétt eins og hv. fjárlaganefnd, að rétt sé að fjárlaganefnd verji miklum tíma í það. Nefndin sameinaðist, undir forustu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, um álit á ríkisreikningi og sýndi þannig í verki vilja til að leggja aukna áherslu á eftirlitshlutverk sitt.

Að lokum fagna ég góðri skipan nefndarinnar og er þess fullviss að það verði góð samvinna og metnaður til að stuðla að heilbrigðum og sjálfbærum ríkisbúskap.