140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:03]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get verið sammála hæstv. fjármálaráðherra um að það hefði verið æskilegt t.d. að greiða hraðar inn á B-deild hjá lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Þeir sem muna umræðu um íslensk stjórnmál á þessum tíma muna það líka að það voru margir sem voru með miklar kröfur á ríkissjóð um stóraukin útgjöld til alls konar málaflokka. Menn vildu hækka og breikka, auka og bæta nánast öll þau svið sem ríkið var að skipta sér af. Það er rétt að halda því til haga.

Það er alveg rétt, ef maður horfir til baka held ég að það hefði verið langskynsamlegast að greiða inn á B-deildina vegna þess að þá hefðu þeir peningar ekki heldur verið til staðar ef sú freistni hefði leitað á menn að nota þá peninga sem hefðu verið afgangs og í sjóðum ríkisins til þess að reyna að koma bankakerfi sem var komið að falli til hjálpar.

Hvað varðar hagvöxtinn er það bara eins og ég nefndi í ræðu minni að þegar menn líta tvö ár aftur í tímann og skoða spárnar fyrir árin 2011 og 2012 og sjá hvernig menn hafa verið að færa sig alltaf niður á við þannig að raunveruleikinn hefur verið allur annar en spárnar hafa verið þá hljóta menn að hafa áhyggjur. Það er einmitt svo með þessar spár, sem er alveg rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra, að þær eru ónákvæm vísindi, og hvort það eru 1,6% eða 1,8% eða 2,1% eru skilaboðin þessi: Það verður lítill hagvöxtur á næsta ári og það er alvarlegt mál.

Síðan eins og í hverri einustu spá sem Seðlabankinn birtir er það alltaf þannig að verðbólgan verði komin niður fyrir þolmörk eftir 16, 18 eða 24 mánuði. Ég man ekki eftir nokkurri spá sem ekki var einmitt þannig. Það kemur mér því ekkert á óvart þó að meðaltal í einhverjum hagspám skili þessari niðurstöðu. En því miður er ástæða til að hafa áhyggjur af þessu og gera þá kröfu að við leggjum miklu meira afl í að koma af stað fjárfestingu í landinu. Það skiptir máli.