140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[14:07]
Horfa

Flm. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir það að um leið og mikilvægt er að ríkisvaldið tryggi neytendum vernd gegn mun sterkari stöðu fjármálafyrirtækja er líka mikilvægt, eins og það heitir núorðið, að valdefla neytendur þannig að þeir hafi betri þekkingu á þeim viðskiptum sem þeir eru að fara í og geti þar með verið gagnrýnni á það með hvaða hætti þjónusta er boðin fram af fjármálafyrirtækjum.

Nú hefur verið mikil umræða um að efla þurfi fjármálalæsi. Ég veit að þegar hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson var viðskiptaráðherra hafði hann mikinn áhuga á þessum málum og lagði áherslu á þau þannig að það hefur verið unnið svolítið að þessu innan Stjórnarráðsins. Síðan hefur umboðsmanni skuldara verið falið þetta hlutverk, en ég held að það þurfi að ganga miklu lengra. Eitt af hlutverkum þessarar kanadísku stofnunar, sem er talin mjög til fyrirmyndar á sviði neytendaverndar á fjármálamarkaði, er einmitt að vera með aðgengilegar upplýsingar fyrir neytendur. Þá geta neytendur þegar þeir ætla að taka lán eða spara leitað upplýsinga hjá þessari stofnun. Þar er hlutlaus aðili sem á að bæta neytendum upp þá veiku stöðu sem þeir eru í gagnvart fjármálafyrirtækjunum.

Ég tek því undir með hv. þingmanni enda er það tekið hér fram að mikilvægt sé að það komi tillögur um hvernig auka eigi fjármálafræðslu til neytenda.