140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[14:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé enginn vafi á því að það er afskaplega mikilvægt að fara sérstaklega í neytendavernd á Íslandi. Það þarf ekki að færa mörg rök fyrir því. Ég held hins vegar að menn ættu ekki alltaf að festa sig við blessað Evrópusambandið, þeir ættu að leita aðeins víðar því að Evrópusambandið eru orðin svolítil trúarbrögð hjá sumum hv. þingmönnum. Það er mjög vont þegar menn eru algjörlega búnir að festa sig í einhverjum kassa. Evrópusambandið er frekar lítill kassi þegar menn skoða það. Ég hvet hv. þingmenn sem eru fastir í þeim kassa að líta upp úr honum því að það er ýmislegt fleira í gangi í heiminum en hjá Evrópusambandinu.

Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir minntist á annað mál sem við ræðum á eftir sem tengist svo sannarlega neytendavernd með beinum hætti og hefur verið sýnt fram á það hvað eftir annað. Ég vil fá að heyra sjónarmið 1. flutningsmanns frumvarpsins, hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, um hvaða afstöðu hún hefur til þess máls. Það mál sem við ræðum á eftir gengur út á það að leiðrétta það sem gert var og var þvert á hagsmuni neytenda, hér voru sett lög sem fólu í sér reiknireglu sem gerði það að verkum að ekki er tekið tillit til greiðslu inn á höfuðstól við útreikning á erlendum lánum. Það er það sem fjármálastofnanir hafa hengt sig í og bent á að þau lög séu grundvöllur þess að þær gangi fram með þessum hætti. Það hefur orðið til þess að komin er af stað hópmálssókn sem auglýst var í blöðunum í dag. Ég held að það sé mjög erfitt að finna jafnskýr dæmi og þetta um að gengið var á hlut neytenda, í þessu tilfelli lántakenda. Það væri ágætt að heyra sjónarmið hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um hvort hún styðji ekki það mál sem við tölum fyrir á eftir.