140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[15:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég vil er að við förum yfir málin. Ef það leiðir til þess að helstu sérfræðingar í áfengismálum og allir flokkar komast að þeirri niðurstöðu að það sé betra að leyfa áfengisauglýsingar með ákveðnum römmum mun ég fara yfir það. Ég ætla ekki að standa hér í þessum þingsal og segja já eða nei. Við erum ekki í þannig pólitík og við eigum ekki að vera í þannig pólitík núna í svona málum. Við eigum að fara vel yfir þau. Að hæstv. ráðherra skuli leyfa sér að koma hingað upp og fara eins og köttur í kringum heitan graut í þessu máli þýðir einfaldlega að hann veit upp á sig skömmina, hann er ekki búinn að vinna grunnvinnuna.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra að mér finnst miður ef ekki hefur verið hlustað á hv. þingmenn í gegnum tíðina, væntanlega þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. En er þá ekki ráðherra í lófa lagið núna þegar hann er kominn í stjórnarmeirihluta að breyta þeim vinnubrögðum? Nei, hann ætlar að viðhalda þeim vinnubrögðum. Það á ekki að tala við stjórnarandstöðuna núna, ekki frekar en fyrri daginn. Af hverju eigum við ekki að læra af fortíðinni? — Á ég að gera hlé á máli mínu meðan aðstoðarmaður ráðherra gefur honum ráð? — Eigum við þá ekki að reyna að vinna fordómalaust saman að þessu máli? Það getur vel verið að við nánari athugun komi í ljós að það sé betra að fara einhverjar svipaðar leiðir og ráðherra leggur til. Ég hef bara ekki komið auga á þær enn þá. Mér finnst það fullgild rök sem hafa verið sett fram, m.a. af umsagnaraðilum sem sendu umsagnir sínar til nefndarinnar á síðasta ári, en á þetta hefur ekki reynt. Nú á að kæfa okkur sem viljum reyna að ná einhverri samstöðu í þessu máli. Þetta er ekki mál sem við eigum að karpa hér um endalaust. Við eigum að vinna þetta saman, ég ítreka það.