140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:35]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu og yfirgripsmikla. Ég vildi nefna eitt af því sem hann kom inn á og var til úrlausnar milli umræðna sem voru uppbyggingar á vettvangi fangelsismála. Ég tel að tillaga fjárlaganefndar í því máli sé mjög góð. Það hefur skapast góð sátt um það mál milli sjónarmiða sem voru afvegaleidd í umræðunni af því að það stóð aldrei annað til en að ná samstöðu um að ráðast í byggingu á nýju gæsluvarðhalds-, móttöku- og kvennafangelsi en tryggja um leið nauðsynlegar endurbætur og framtíðaráætlanir um öryggisfangelsið á Litla-Hrauni. Þetta tókst og náðist um þetta samkomulag og sátt sem er mjög jákvæð og mikil innspýting fyrir endurbætur á fangelsis- og betrunarmálum á Íslandi. Auk þess mun hæstv. innanríkisráðherra flytja þinginu þingsályktunartillögu til heildarstefnumótunar í fangelsismálum í janúar þar sem við getum svo tekið á málaflokknum og reifað hann og skipulagt til framtíðar.

Ég vildi nefna í þessu samhengi það sem hv. þingmaður kom inn á, að ekki væri búið að ákveða endanlega uppbyggingarferlið allt og fjármögnun á því en mestu skipti að ná samkomulagi um verkefnið, veita til þess fjármagn til hönnunar um leið og veitt yrði fjármagn til endurbóta á Litla-Hrauni. Áætlun um frekari endurbætur því fylgjandi er byggð á skýrslu frá árinu 2007 og er utanumtekt á fangelsismálum.

Telur hv. þingmaður heppilegra að fara svokallaða leiguleið eða hefðbundna leið ríkisframkvæmda? Báðir valkostirnir eru auðvitað opnir og það er ekkert óeðlilegt við að farið sé af stað með hönnun og undirbúning þó að við séum ekki búin að ákveða þetta. Það er þá hægt að taka ákvörðun um það af yfirvegun á næstu mánuðum. Mestu skiptir að fara af stað. Við vitum umfangið, við vitum um það bil kostnaðinn í það heila en ágætt væri að fá það fram í umræðunni í dag hvað þingmenn þvert á flokka telja heppilegustu leiðina til að fjármagna verkið að fullu.