140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:09]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er góð spurning og svarið við henni er mjög einfalt. Það er þingsins að ákveða útgjaldaramma Fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögmanni gerir þingið það í sérlögunum og fjárlögunum en ef það tvennt stangast á þá ráða sérlögin umfram fjárlögin. Það segir ríkislögmaður.

Ég fer að lögum. Ég legg fram frumvarp í samræmi við þær heimildir sem ég tel að Fjármálaeftirlitið þurfi í ljósi þeirrar greiningar sem eftirlitið leggur fram, um eftirlitsþörfina. Hvað þingheimur vill gera við Fjármálaeftirlitið er þingheims að ákveða. Ef þingheimur vill rýra möguleika Fjármálaeftirlitsins til að rannsaka það sem aflaga fór í aðdraganda hrunsins þá er það vald þingheims. Ef þingheimur vill draga úr getu Fjármálaeftirlitsins til að mæta nýrri eftirlitsþörf og byggja upp tiltrú á íslenskt fjármálakerfi þá er það ákvörðun þingsins en það er þá þingheims að útskýra með hvaða hætti það er gert. Ég hef fyrir mitt leyti svarað því hvað ég vil gera með því að leggja þetta frumvarp fram.