140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans ræðu. Ef ég skildi hann rétt þá var gert samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Undir það skrifa hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og það miðar að ákveðnu umhverfi í tengslum við Fjármálaeftirlitið. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra segir síðan að hann geti ekki lagt fram frumvarp sem við getum tekið afstöðu til vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra standi á einhvern hátt í vegi fyrir því. Það væri ágætt ef hæstv. ráðherra útskýrði þetta betur ef þetta er ekki rétt skilið hjá mér.

Ég er hjartanlega sammála hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um hve mikilvægt það er að Fjármálaeftirlitið sé sjálfstætt í störfum sínum. En í ljósi þess sem gerðist til dæmis með Byr og SpKef, sem voru í umsjón og vörslu hæstv. fjármálaráðherra, þar sem ekki var farið eftir lögum, hef ég áhyggjur og spyr hvort hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hafi það ekki líka.