140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef nokkrar áhyggjur af tvennu öðru. Í fyrsta lagi hækkun á kolefnisgjöldum. Hækkun á eldsneyti mun vitanlega leiða til aukins kostnaðar fyrir þau fyrirtæki sem eru í flutningi og vitanlega íbúa líka. Sérstaklega horfi ég þar til þeirra sem þurfa á samgöngum og vöruflutningum að halda úti á landi. Mér sýnist að þetta muni leiða til aukins kostnaðar fyrir þá og velti fyrir mér hvernig innanlandsfluginu muni reiða af ef þessi hækkun verður að veruleika eins og ég skil málið. Það væri ágætt ef hv. þingmaður gæti farið örstutt yfir það.

Hitt sem ég ætlaði að spyrja að en gefst líklega ekki tími til að svara er að hér er gert ráð fyrir minna atvinnuleysi. Nýjustu tölur benda hins vegar til fjölgunar á atvinnuleysisskrá. Að sjálfsögðu vonum við að sú sé ekki raunin en þetta sýnir okkur hversu viðkvæmt er að veðja á að atvinnuleysi fari minnkandi þegar verið er að lækka tryggingagjaldið. Ég er að sjálfsögðu mjög hlynntur því að lækka tryggingagjaldið (Forseti hringir.) en ég velti því fyrir mér hvort grunnurinn sé nógu traustur.