140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

refsiaðgerðir ESB vegna makrílveiða Íslendinga.

[11:00]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Nýlega lauk samningaviðræðum strandþjóðanna um makrílskiptinguna. Því miður varð engin niðurstaða af þeim viðræðum og í raun og veru má segja að skrefið hafi frekar verið tekið aftur á bak. Það er hins vegar athyglisvert að strax í framhaldi af þessum samningaviðræðum settust þjóðir Evrópusambandsins niður til að undirbúa refsiaðgerðir á hendur íslenskum og færeyskum stjórnvöldum. Nú háttar svo til að einmitt í dag eru sjávarútvegsráðherrar Evrópusambandsríkjanna á fundi að vinna að þessu máli.

Að mínu mati er um að ræða mjög alvarlegt mál. Við vitum ekki hvað út úr því kemur endanlega, við vitum hins vegar að refsiaðgerðir af þessu taginu stangast á við samninga okkar við Evrópusambandið og við vitum líka að slíkar refsiaðgerðir munu stangast á við alþjóðlegar skuldbindingar, m.a. á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO.

Það sem er hins vegar mjög alvarlegt er einfaldlega sú staðreynd að þetta öfluga ríkjasamband skuli einmitt þessa dagana vera að ræða, íhuga og undirbúa refsiaðgerðir á hendur okkur vegna þess að við erum ósammála um skiptingu makrílstofnsins. Við erum auðvitað fullgildir aðilar að því máli, að skiptingu makrílstofnsins. Við erum strandþjóð í þeim skilningi og óheppilegt að milliríkjadeilur skuli vera uppi um þetta mál en það gefur ekki tilefni til þess að viðsemjendur okkar bregðist svo heiftarlega og ómaklega við.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Með hvaða hætti verður brugðist við og með hvaða hætti hefur þegar verið brugðist við því að Evrópusambandið skuli vera að ræða þessi mál? Er ekki alveg ljóst að þetta er sjálfstætt tilefni til þess að við hættum þeim viðræðum sem standa nú yfir við Evrópusambandið um aðild okkar? Getur verið að við ætlum að ganga (Forseti hringir.) svipugöngin, svo að ég noti orðalag hæstv. utanríkisráðherra sem hann viðhefur hér oft, inn í Evrópusambandið undir hótunum (Forseti hringir.) frá því um refsiaðgerðir og viðskiptaþvinganir á hendur okkur?