140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[21:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek algjörlega undir það að ég óttast það mjög. Í ræðu minni kom ég inn á það að ég held að þessi fjársýsluskattur muni einmitt leggjast þyngst á sparisjóðina og helst þá minnstu.

Ég þekki það frá uppgangi stóru bankanna að þá reiknuðu þeir það einfaldlega þannig út að þær einingar sem ekki skiluðu sem mestum hagnaði á uppgangsárunum — og það var auðvitað galin arðsemi sem menn fóru fram á — að þeim útibúum var lokað víða um land. Ég þekki mörg dæmi þess.

Ég þekki líka dæmi þess, eins og hv. þingmaður nefndi, að í mörgum byggðarlögum þar sem sparisjóðirnir eru kjölfestan hafa menn gert minni arðsemiskröfur og hafa meiri þekkingu á þeim sem sækja sér lán til að byggja upp atvinnulífið einmitt á þeim stað.

Ég óttast að lokun útibúanna hafi ekki það einasta í för með sér, eins og ég nefndi áðan, að enn fleiri konur missi störf, meiri fábreytni verði á vinnumarkaði fyrir konur á viðkomandi svæðum, heldur muni þetta einmitt hafa þau áhrif, eins og hv. þingmaður ýjaði að, að erfiðara verði fyrir atvinnulífið í viðkomandi byggðarlagi að halda áfram að byggjast upp. Ég þekki dæmi þess bæði frá sjálfum mér og öðrum að vera með afar góðar hugmyndir um atvinnuuppbyggingu þar sem viðskiptamódelið var mjög gott og menn horfðu á það björtum augum í stóru bönkunum á höfuðborgarsvæðinu, en þegar menn uppgötvuðu að fyrirtækið átti að hafa starfsemi úti á landi urðu þeir hugsi og tvístigu og spurðu síðan að lokum: En eigið þið engar eignir hérna á höfuðborgarsvæðinu sem hægt er að veðsetja? Vegna þess að á góðæristímanum voru þeir einfaldlega ekki tilbúnir til þess að lána þó að viðskiptamódelið væri pottþétt, arðsemin væri góð, eðlileg en ekki galin, þ.e. allt of há, heldur bara eðlileg, þá treystu menn sér ekki til að lána slíkum fyrirtækjum.