140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[23:33]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að svara fyrir Vinstri græna hvers vegna vinnubrögðin eru með þessum hætti. Hins vegar er það gagnrýnisvert að við skulum ítrekað horfa upp á að vinnubrögð séu með þeim hætti sem þau eru í þessu frumvarpi. Það er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að í síðustu alþingiskosningum og eftir bankahrun var því statt og stöðugt lofað að vinnubrögð við gerð frumvarpa yrðu bætt. Það væri mikilvægt að fleiri flokkar kæmu að vinnslu frumvarpa, að hagsmunaaðilum væru kynnt frumvörp og þau væru unnin í samráði við þá aðila sem þau snerta, en við höfum í allt of ríkum mæli orðið vitni að því að þetta hafi verið svikið og brotið.

Frumvörp eru unnin í meiri leynd núna en áður og þetta er eitt af því sem sitjandi ríkisstjórn og þá sérstaklega Vinstri hreyfingin – grænt framboð gagnrýndi mjög áður en hún tók sæti í ríkisstjórn. Ég hef gagnrýnt þetta mjög og hef gert það allt þetta kjörtímabil, gagnrýnt mjög hvernig vinnubrögðin hafa verið. Við höfum séð þetta í mýmörgum málum. Það á ekki eingöngu við í þessu máli, það er svo varðandi alla vinnuna við fjárlögin og hin ýmsu mál, stjórnarráðsbreytingarnar, svo ekki sé minnst á Icesave-málið, Evrópusambandsumsóknina. Svona getum við þulið upp vinnubrögðin hjá sitjandi ríkisstjórn þar sem allt virðist vera sveipað einhvers konar leyndarhjúpi og öllum gert ófært að kynna sér eitt eða neitt, málum laumað inn í frumvörp á síðustu stundu. Þetta frumvarp er engin undantekning hvað það snertir.