140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[16:19]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það væri mjög skynsamleg nálgun á þetta mál að taka það út af dagskrá og að efnahags- og viðskiptanefnd tæki málið upp aftur. Í ljósi eðlis málsins og þeirra miklu hræringa sem eru á heimsmörkuðum og þá sérstaklega í Evrópu teldi ég raunar rétt, hvort sem leitað yrði umsagnar hjá hv. utanríkismálanefnd eða ekki, að hún yrði höfð að einhverju leyti með í ráðum við vinnslu þessa máls. Reyndar hef ég miklar áhyggjur af því að ríkisstjórnarmeirihlutinn beri ekki mikið skynbragð á það hvað er að gerast utan veggja landsins hvað þetta snertir og ber þess kannski að geta að 15. júlí í sumar kom beiðni frá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um að tekin yrði til umræðu á vettvangi nefnda þingsins efnahagsstaðan í Grikklandi og efnahagshorfur á evrusvæðinu í heiminum. Þessi fundarbeiðni hefur síðan verið ítrekuð margsinnis. Fyrsti fundur fór loks fram í morgun. Þá voru liðnir fimm mánuðir síðan fram kom þessi beiðni um að ræða þróun efnahagsmála í Evrópu og á evrusvæðinu og hvaða áhrif hún hefði á stöðu Íslendinga. Ég held að það sé kominn tími til að við Íslendingar tökum upp önnur vinnubrögð þegar kemur að svona málum. Það er akkúrat á þeim nótum sem hv. þingmaður nefnir hér, þ.e. að fara gaumgæfilega ofan í þetta mál. Hvaða spurningar eru það sem aðrar þjóðir spyrja? Af hverju spyrja þær þeirra? Er ekki rétt að við Íslendingar gerum það einnig?