140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get upplýst hv. þingmann um hvernig þetta var í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Í stuttu máli var ekkert minnst á þetta við kynningu málsins, ekki neitt. Ég spurði hins vegar þá menn sem kynntu málið hvernig þetta væri varðandi önnur lönd, hvort þau væru að greiða sinn skerf og hversu hratt. Þá á ég við hvort það væru einhver tímamörk og hvort það skipti máli hvort við skoðuðum þetta almennilega eftir áramót. Svörin voru mjög skýr, allar þjóðir væru að greiða þetta og mundu öll gera það fyrir áramót. Það var eins og þetta væri bara formsatriði og látið að því liggja að það væri mjög óeðlilegt og Íslendingar hefðu mjög mikla sérstöðu ef við gengjum ekki frá þessu hratt og vel. Þetta voru svörin sem við fengum. Það var ekki fyrr en við fórum að skoða þetta hér og leita okkur upplýsinga með öðrum hætti að menn sáu að þessu var þveröfugt farið. Það liggur fyrir að miklar efasemdir eru um þetta hjá mörgum þjóðríkjum. Sum ætla ekki að greiða og umræðan er mikil vegna óróa á mörkuðum um það hvað einstaka þjóðir ætla að gera.

Þetta minnir mig á það, virðulegi forseti, þegar ég spurðist fyrir um það í þingnefnd þegar Icesave-samningurinn var kynntur, hvort við fengjum að sjá samninginn. Svarið var mjög skýrt: Nei. Hv. þingmenn gætu ekki fengið að sjá Icesave-samninginn, en hugsanlega væri hægt að fá Ríkisendurskoðun til að skoða samninginn og túlka hann ofan í þingmenn.

Það virðist alltaf vera þessi endalausa leyndarhyggja í kringum þessa ríkisstjórn sem er engan veginn boðleg og í (Forseti hringir.) raun hættuleg hagsmunum íslensku þjóðarinnar.